Aftur og enn voru Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon í stórum hlutverkum hjá SC Magdeburg þegar liðið vann þréttánda sigurinn á keppnistímabilinu í þýsku 1. deildinni í handknattleik í dag á heimavelli þegar liðsmenn Göppingen komu í heimsókn, 33:29.
Ómar Ingi skoraði sjö mörk, fjögur úr vítaköstum, auk sex stoðsendinga og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk og gaf fimm stoðsendingar. Ómar Ingi var markahæstur hjá Magdeburg í leiknum.
Josip Sarac skoraði 10 mörk fyrir Göppingen sem var þremur mörkum undir í hálfleik, 15:12, í Getec Arena í Magdeburg.
Magdeburg er áfram í fjórða sæti deildarinnar en er aðeins tveimur stigum á eftir toppliðinu, Füchse Berlin, sem hefur auk þess leikið einum leik fleira.
Þetta var síðasti leikur þýsku meistaranna á árinu.
Síðar í dag verða fleiri leikir á dagskrá þýsku 1. deildarinnar. Eins verður leikið í deildinni á morgun og verða það síðustu leikir deildarinnar áður en hlé verður gert vegna undirbúnings landsliða vegna heimsmeistaramótsins sem hefst 11. janúar.