„Staðan er svipuð og hún var en vissulega er ljóst að eftir því sem lengra líður á bataferlið þá kemst hann nær parketinu. Hvort það nægir fyrir EM er útilokað að gera sér í hugarlund í dag. Það verður bara að koma í ljós,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik spurður um stöðuna á Þorsteini Leó Gunnarssyni landsliðsmanni sem hefur verið frá keppni og æfingum síðan snemma í nóvember vegna náratognunar.
Þorsteinn Leó var í Safamýri í hádeginu þegar landsliðið kom saman til fyrstu æfingar en tækifærið var notað fyrir æfinguna til þess að smella af hópmynd af landsliðinu auk einstaklingsmynda.
Fer sennilega með til Frakklands
Snorri Steinn segir alls óvíst enn þá hvort Þorsteinn Leó verður með landsliðinu á Evrópumótinu. Líklegt sé þó að stórskyttan fari með landsliðshópnum til Frakklands 8. janúar. Landsliðið leikur tvo leiki í Frakklandi, 9. og 11. janúar, áður en farið verður til Kristianstad 14. janúar. Snorri Steinn ítrekaði það sem hann sagði fyrir jól þegar landsliðshópurinn var valinn að varlega yrði farið í sakirnar með Þorsteini svo hann verði ekki fyrir bakslagi.
„Ef okkur líst vel á stöðuna þá fer Þorsteinn með okkur út, þó ekki nema til þess að hann sé þá með okkar lækna- og sjúkraþjálfarateymi þannig að það geti haldið áfram að vinna með og fylgst með stöðunni dag frá degi og Þorsteinn fengi þá aðstoð sem hann þarf á að halda,“ sagði Snorri Steinn sem eins og sakir standa telur litlar líkur vera á að Þorsteinn leiki með í riðlakeppninni gegn Ítölum, Pólverjum og Ungverjum 1., 18. og 20. janúar.
Vandinn við náratognanir eru að erfitt er að vera alveg viss hvenær þær hafa jafnað sig. Til þess þarf átaksæfingar sem leiða yfirleitt aðeins til tvennra niðurstaða, annað hvort er tognunin yfirstaðin eða að allt fer í fyrra horf og áfram þarf að bíða vikum saman eftir bata.
Skýrist á næstu 10 dögum
„Eftir viku til 10 daga vitum við betur í hvora áttina þetta fer hjá Þorsteini. Eftir að hann hefur jafnað sig þarf hann að eiga þess kost að æfa með okkur og komast í takti við leikinn. Allt verður þetta að koma í ljós á næstu vikum,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik í viðtali við handbolta.is í dag.
EM karla 2026 – leikdagar, leikstaðir, leiktímar




