- Auglýsing -
- Auglýsing -

Er ekkert pláss fyrir mistök

Hauikamaðurinn Orri Freyr Þorkelsson t.v. og Birgir Már Birgisson, leikmaður FH, í leiknum í Krikanum í gærkvöld. Mynd/ J.L.Long
- Auglýsing -

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, var ekki ánægður með margt í leik sinna manna í grannaslagnum við FH í Kaplakrika í gærkvöld þegar liðin gerðu fjórða jafntefli sitt í síðustu fimm leikjum, 29:29.


„Við lékum ekki nógu vel að mínu mati. Við gerðum alltof mörg mistök til dæmis í vörninni sé tekið mið að því hvernig við viljum haga leik okkar. Í sókninni var leikurinn góður framan af en þegar kom fram í síðari hálfleik vorum við alls ekki nógu beittir og gerðum alltof mörg einföld mistök. Við gerðum alls sjö tæknifeila í síðari hálfleik sem er alltof mikið,“ sagði Aron.


„Menn stigu oftar en einu sinni á línu, fengu á sig ruðning, gripu ekki boltann eða sendu beint út fyrir hliðarlínu. Eitthvað sem er ekki líkt okkur og er alls ekki eins og við viljum vera. Í svona jöfnum leik þá munar um hver einustu mistök sem menn gera, það er ekkert pláss fyrir mistök. Í ofanálag þá vorum við manni færri síðustu tvær mínúturnar sem gerði okkur afar erfitt fyrir,“ sagði Aron í samtali við handbolta.is.


Mjög þétt er leikið í Olísdeildinni um þessar mundir. Haukar taka á móti Selfoss í Schenkerhöllinni í 10. umferð deildarinnar á föstudaginn en Selfoss tapaði fyrir Fram í fyrrakvöld eftir þrjá sigurleiki í röð. Haukar töpuðu í gærkvöldi sínu fyrsta stigi síðan í fjórðu umferð.


„Það er afar stutt á milli leikja um þessar mundir og þar af leiðandi er ákveðinn galdur að halda mönnum ferskum. Við tökum einn leik í einu. Þessi leikur tók klárlega sinn toll en það er stutt í næstu viðureign sem verður við Selfoss á heimavelli á föstudagskvöld,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka sem er með sitt lið í efsta sæti Olísdeildarinnar með 13 stig eftir átta leiki. Haukar eiga leik á Aftureldingu sem einnig er með 13 stig. FH er rétt á eftir með 12 stig.

Staðan í Olísdeildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -