- Auglýsing -
- Auglýsing -

Er gríðarlega ánægður með liðið mitt

Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals frá 2017 til 2023. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Ég er gríðarlega ánægður með liðið mitt þótt vissulega hefði ég viljað vinna leikinn. Miðað við stöðuna á okkur, það sem gekk á í leiknum, og að brotna ekki við mótlætið. Afturelding var komin með tveggja marka forskot undir lokin en mínir menn náðu öðru stiginu áður en yfirlauk. Ég hrósa mínum mönnum fyrir það,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals við handbolta.is eftir jafntefli Vals við Aftureldingu, 30:30, í 12. umferð Olísdeildar karla í handknattleik á Varmá í gærkvöld.

Skýlir sér ekki bak við meiðslin

Mikil leikja- og ferðatörn hefur staðið yfir hjá Valsmönnum síðustu vikur og liðið leikið tvo erfiða leiki með tilheyrandi ferðalögum innanlands. Magnús Óli Magnússon var ekki með í leiknum í gær og Róbert Aron Hostert og Alexander Örn Júlíusson meiddust í gærkvöld, svo dæmi sé tekið. Snorri segist ekki skýla sér á bak við meiðsli og ferðalög. Það sé hluti af því verkefni sem Valsliðið hafi ákveðið að fara út í.

Höfum staðist álagið

„Ég nálgast hvern leik með það markmið að leika á fullu og vinna þá burt séð frá hverjir geta leikið og hverjir ekki. Ég er mjög ánægður með hvernig við höfuð staðið álagið í deildinni í gegnum þá törn sem við sjáum nú fyrir endann á.“

Mæti með gott lið í síðustu leikina

Valur á tvo leiki eftir fyrir jól, Evrópuleik við Ystad í Oregohöllinni á þriðjudagskvöld og bikarleik á móti ÍBV í Eyjum á laugardaginn eftir viku. „Tveir erfiðir leikir eru framundan, þar á meðal bikarleikur. Það er bara mitt verkefni að finna út úr því hver nálgun okkar verður á leikina tvo og hverjir verða heilir heilsu til þess að taka þátt í þeim. Við vinnum úr því sem við höfum hverju sinni. Ég mæti í tvo síðustu leikina með gott lið í höndunum, það er alveg ljóst,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari karlaliðs Vals í samtali við handbolta.is í gærkvöld.

Staðan í Olísdeildunum og leikjadagskrá.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -