Haukur Þrastarson landsliðsmaður í handknattleik er sagður ganga til liðs við þýska liðið Rhein-Neckar Löwen í Mannheim í sumar eftir eins árs veru hjá Dinmao Búkarest. Þessu er haldið fram af RT handball á Instagram í dag. Orðrómur síðunnar hefur oftar en ekki í gegnum tíðina átt við rök að styðjast.
Ennfremur kemur fram að félögin, þ.e. Rhein-Neckar Löwen og Dinamo Búkarest staðfesti væntanleg vistaskipti Selfyssingsins fljótlega.
Haukur, sem var í íslenska landsliðinu á HM í janúar, samdi við Dinamo Búkarest til eins árs síðasta sumar eftir að hafa verið í fjögur ár hjá pólska liðinu Industria Kielce.
Haukur hefur leikið 41 landsleik og skorað í þeim 56 mörk.
Nokkur uppstokkun verður hjá Rhein-Neckar Löwen fyrir næstu leiktíð. Tilkynnt hefur verið um væntanlega komu nokkurra nýrra leikmanna síðustu daga auk þess sem Maik Machulla tekur við þjálfun af Sebastian Hinze.
Rhein-Neckar Löwen er situr í 7. sæti þýsku 1. deildarinnar með 23 stig eftir 19 leiki.
Talsverður hópur íslenskra handknattleiksmanna hefur leikið með Rhein-Neckar Löwen í gegnum tíðina. Má þar m.a. nefna Alexander Petersson, Guðjón Val Sigurðsson, Guðmund Hrafnkelsson, Ólaf Stefánsson, Snorra Stein Guðjónsson, Stefán Rafn Sigurmannsson, Ými Örn Gíslason og Arnór Snæ Óskarsson. Sá síðarnefndi kvaddi félagið í vetur og gekk til liðs við Kolstad í Noregi.
Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfaði Rhein-Neckar Löwen frá 2010 til 2014.