- Auglýsing -
- Auglýsing -

Er í hópi markahæstu kvenna deildarinnar

Kátir leikmenn BSV Sachsen Zwickau eftir sigur á Oldenburg í gær þegar sæti í umspili 1. deildar var tryggt. Díana Dögg er númer 8, lengst t.v. í efri röð. Mynd/BSV Sachsen Zwickau
- Auglýsing -

Díana Dögg Magnúsdóttir hafnaði í 18. sæti á lista yfir markahæstu leikmenn þýsku 1. deildarinnar í handknattleik en leiktíðinni lauk í gær. Um leið er hún næst markahæsti leikmaður BSV Sachsen Zwickau. Þetta er alls ekki amalegur árangur hjá Díönu Dögg á sínu fyrsta tímabili í deildinni sem er ein af þeim sterkari í Evrópu.


Alls skoraði Díana Dögg 100 mörk í 26 leikjum BSV Sachsen Zwickau og var með 54% skotnýtingu samkvæmt tölfræðisamantekt á heimasíðu 1. deildar kvenna. Tvö markanna skoraði hún úr vítaköstum en eitt fór í súginn. „Ég er mjög ánægð með að vera á meðal 20 markahæstu í deildinni,“ sagði Díana Dögg við handbolta.is í gær.


Pia Adams varð markahæsti leikmaður BSV Sachsen Zwickau með 112 mörk og situr í 13. sæti. Markadrottning þýsku 1. deildarinnar er Malina Michalczik, leikmaður Blomberg-Lippe. Hún skoraði 151 mark, þar af 66 úr vítaköstum.


Bietigheim, sem vann Evrópudeildina í handknattleik kvenna fyrir viku, varð þýskur meistari með fullu húsi stiga, 52 stig í 26 leikjum. Dortmund sem varð meistari á síðasta ári varð að gera sér annað sætið að góðu.


Eins kom fram á handbolta.is í gær þá krækti BSV Sachsen Zwickau í umspilssæti með því að leggja Oldenburg í lokaumferðinni á útivelli. Þar með eru framundan tveir leikir hjá BSV Sachsen Zwickau sem skera úr um hvort liðið heldur sæti sínu í 1. deildinni eða ekki. Leikið verður við Göppingen, sem hafnaði í öðru sæti 2. deildar, 1. og 4. júní. Enn liggur ekki opinberlega fyrir hvort fyrri eða seinni leikurinn verður í Zwickau.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -