Portúgalsmeistarar Sporting Lissabon leika til úrslita við erkifjendur sína úr höfuðborginni, Benfica í úrslitaleik, deildarbikarkeppninnar í handknattleik karla á morgun. Benfica lagði Porto, 34:31, í annarri viðureign undanúrslita í dag. Sporting, án Orra Freys Þorkelssonar, vann stórsigur á ABC Braga, 37:26, í hinum leik undanúrslita.
Stiven Tobar Valencia skoraði eitt mark fyrir Benfica og var einu sinni vikið af leikvelli.
Stórskyttan Þorsteinn Leó Gunnarsson tók þátt í sínum fyrsta leik á opinberu landsmóti í Portúgal með Porto. Hann stimplaði sig inn með þremur mörkum sem dugðu skammt til sigurs.
Benfica var með yfirhöndina í leiknum nánast frá upphafi. M.a. var fimm marka munur á liðunum þegar fyrri hálfleikur var að baki, 20:15.
Orri Freyr glímir við lítilsháttar meiðsli í ökkla eftir því sem hann sagði handbolta.is frá í dag og var þar af leiðandi ekki með.