- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Erlingur og félagar hleyptu EM upp í fyrsta leik

Erlingur Richardsson fagnar á hliðarlínunni í kvöld þegar ljóst var að hollenska landsliðið hafi unnið Ungverja. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Erlingur Richardsson og lærisveinar hans í hollenska landsliðinu hleyptu riðli íslenska landsliðsins á Evrópumeistaramótinu í handknattleik í uppnám í kvöld er þeir lögðu Ungverja með þriggja marka mun í upphafsleik B-riðils, 31:28, í MVM Dome íþróttahöllinni í Búdapest. Sigurinn var sanngjarn og sannfærandi því hollenska liðið var með yfirhöndina frá upphafi. Ungverjar náðu að jafna metin, 28:28, þegar þrjár mínútur voru til leiksloka en yfir komust þeir aldrei.

Tapið er reiðarslag fyrir ungverska liðið sem lék fyrir framan 20 þúsund áhorfendur í kvöld. Mikið hefur verið lagt í sölurnar til þess að búa liðið undir keppnina og til þess horft að heimamenn komist alla leið í undanúrslit. Enginn skal þó afskrifa heimamenn þrátt fyrir tapið í kvöld en ljóst er samt að það setur talsvert stórt strik í reikninginn því framundan eru leikir við portúgalska landsliðið á sunnudag og það íslenska á þriðjudaginn.


Sigurinn er rós í hnappagat Erlings þjálfara sem hefur af elju byggt upp þetta lið jafnt og þétt. Hollendingar sýndu í undankeppninni að þeir væru til alls vísir.

Hollenska liðið var þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 13:10, eftir afar vel útfærðan leik. Vörnin var frábær og markvörðurinn fór á kostum.


Eftir því sem á leið síðari hálfleik þá voru leikmenn ungverska liðsins að nálgast baráttuglaða leikmenn hollenska liðsins. Þeir stóðust hinsvegar álagið með sóma og komu svo sannarlega flestum á óvart.

Hollenski leikstjórnandinn Luc Steins, t.h., stjórnaði sóknarleik liðsins af festu. Mynd/EPA

Kay Smits, samherji Ómars Inga Magnússonar og Gísla Þorgeirs Kristjánssonar hjá Magdeburg, var markahæstur í hollenska liðinu með 11 mörk í 13 skotum. Hann var valinn maður leiksins. Matai Lekai skoraði átta mörk fyrir Ungverja.


Næsti leikur Hollendingar í riðlinum verður á móti Íslandi á sunnudaginn kl. 19.30.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -