- Auglýsing -
- Auglýsing -

Erlingur orðaður við landslið Sádi Arabíu

Erlingur Richardsson er orðaður við landslið Sádi Arabíu. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Eyjamaðurinn Erlingur Richardsson er sterklega orðaður við starf landsliðsþjálfara karla í handknattleik í Sádi Arabíu sem leitar nú að eftirmanni Zoran Kastratović sem virðist hafa staldrað stutt við í starfi. Eftir því sem handbolti.is kemst næst er Erlingur staddur í Sádi Arabíu væntanlega til viðræðna við stjórnendur handknattleikssambands landsins.


Arnar Daði Arnarsson, ritstjóri og prímusmótor hlaðvarpsþáttarins Handkastið, sagði fyrst frá því á X, áður Twitter, í gærkvöld að Erlingur eigi í viðræðum við Sáda um starf landsliðsþjálfara.

Lítil festa

Lítil festa hefur verið í þjálfun karlalandsliðs Sádi Arabíu á síðustu árum. Daninn Jan Pytlick tók við þjálfun landsliðsins í fyrra en entist ekki í starfinu nema fram yfir HM í janúar. Fyrrgreindur Kastratović tók þá við en virðist ekki hafa skotið rótum. Áður hefur m.a. Frakkinn Didier Dinart staldrað við í skamman tíma í stól þjálfara.

Reif upp Hollendinga

Erlingur hætti þjálfun ÍBV í vor eftir að hafa stýrt liðinu með glæsibrag til sigurs á Íslandsmótinu. Hann var þjálfari karlalandsliðs Hollands frá 2017 til 2022 og reif landsliðið upp á þeim tíma. Undir stjórn Erlings tóku Hollendingar þátt í lokakeppni EM í fyrsta sinn árið 2020. Þeir endurtóku leikinn tveimur árum og náðu þá afbragðsárangri. Einnig vann hollenska landsliðið sér í fyrsta sinn sæti á HM í sex áratugi undir stjórn Erlings. Hann hætti störfum áður en að lokakeppninni kom.

Hafa staðið í skugga

Landslið Sádi Arabíu hefur á undanförnum árum staðið í skugganum af landsliðum Katar og Barein sem eru og hafa verið þau fremstu á þessu slóðum og m.a. verið fastagestir á heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum á síðustu árum. Katarbúar hafa lagt mikla fjármuni í karlalandsliðið og m.a. keypt til sín leikmenn frá Evrópu sem engin tengsl hafa við landið.

Íslendingar í Barein

Íslenskir handknattleiksþjálfarar hafa á undanförnum árum þjálfað landslið í grannríki Sádi Arabíu, Barein. Guðmundur Þórður Guðmundsson reið á vaðið 2017. Aron Kristjánsson tók við af honum ári síðar og síðar Halldór Jóhann Sigfússon áður en Aron tók á ný við karlaliði Barein sumarið 2021. Aron er úti um þessar mundir að búa landslið Barein undir þátttöku á Asíumótinu sem fram fer í október.

Til viðbótar hefur Maksim Akbachev verið þjálfari yngri landsliða og Barein síðan í vor samhliða störfum við uppbyggingu handknattleiks í Eyríkinu í Arabíuflóa.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -