- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Ertu aftur að tala við Íslendinga?“

Þórir Hergeirsson þjálfari norska kvennalandsliðsins veltir stöðunni fyrir sér af yfirvegun. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -
  • Sökunuður verður af brotthvarfi Þóris Hergeirssonar úr starfi landsliðsþjálfara Noregs í kvennaflokki. Síðustu 15 ár hefur Noregur nánast verið annað landslið okkar í handknattleik kvenna. Fregnir af gríðarlegri velgengni landsliðsins hefur vakið athygli hér á landi. Fyrst og fremst er Þórir einstaklega geðþekkur maður, alþýðlegur í umgengni. Ekki vottur af yfirlæti eða hroka.
  • Þórir á alltaf stund til að ræða við íslenska fjölmiðlamenn. Ef ekki strax þá eins fljótt og kostur er á. Stundum hefur þurft að taka viðtölin upp aftur vegna bilunar eða kunnáttuleysis viðmælenda á tækni dagsins í dag. Ekkert mál, byrjum bara aftur.
  • Sama hversu mörg verðlaun hlaðast utan á hann. Alltaf sami sómapilturinn, gæti þess vegna bara verið þjálfari í Grill 66-deildum en ekki sigursælasti landsliðsþjálfari handknattleikssögunnar.
  • Upp skjóta í kollinn nokkur samskipti mín við Þóri frá síðustu árum. Fyrst kemur upp í hugann þegar ég reyndi að hringja í hann eftir sigur norska landsliðsins á HM 2011. Það var fyrsta HM-gull Þóris eftir að hann tók við sem aðalþjálfari. Ég hafði í fórum mínum símanúmer hans. Datt mér í hug á sunnudagskvöldi að ná viðtali við Þóri, fljótlega eftir sigurleikinn. HM fór fram í Brasilíu í það skiptið.
  • Síminn var ítrekað utan þjónustusvæðis. Brá ég á það ráð að hringja í heimilissíma Þóris í Noregi. Eiginkona Þóris svaraði og tók mér hlýlega þótt vafalaust hafi skandinavíski hrærigrauturinn sem ég lét mér um munn fara verið torskilinn. Alltént sagði hún mér að Þórir væri með annað númer í Brasilíu. Gaf hún mér það fúslega upp eftir að ég hafði stamað út mér hver ég væri og hvað ég hefði í hyggju. Engu var líkara en við hefðum verið í daglegum samskiptum. Bara sjálfsagt mál að gefa upp lítt skiljanlegum Íslendingi upp símanúmerið.
  • Fljótlega náði ég í Þóri sem var búinn að taka við gullinu og fagna. Hann var á leiðinni í rútu á hótel með liðinu sem dró ekki af sér við söng, glaum og gleði. Þórir sagðist hafa nægan tíma til að tala við mig, ekki vottur af hroka eða yfirlæti. Áttum við gott samtal sem birtist um kvöldið á netinu og daginn eftir á pappír.
  • Eftir þetta hef ég reglulega verið í samband við Þóri þegar hann hefur unnið stórmót, einnig í aðdraganda þeirra og jafnvel á meðan þau standa yfir. Eitt sinn lét hann rútuna með liðinu bíða á sigurstundu til þess að eiga stutt viðtal. Engu máli skiptir þótt ég í síðari tíð vinni við lítilfjörlegri fréttamiðil en áður.
  • Leiðir okkar Þóris lágu saman í Stafangri á HM kvenna í fyrra. Eftir einn kappleik Noregs gleymdi Þórir sér í spjalli við mig og Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson fréttamann RÚV um daginn, veginn og molakaffið. Það var ekki fyrr en fjölmiðlafulltrúi norska handknattleikssambandsins mætti í fréttamannamiðstöðina og skipaði Þóri að koma með sér að hann kvaddi okkur. Norska pressan beið.
  • Tveimur dögum síðar hitti ég Þóri á ný eftir blaðamannfund að loknum kappleik. Hann tók beiðni minni um viðtal að vanda vel. Þegar formlegu viðtali lauk tók við spjall um þetta og hitt. Þórir rólegur að vanda, áhugasamur um íslenskan handbolta, lífið, tilveruna og rekstur litla handboltmiðilsins á Íslandi. Teygðist aðeins úr óformlegu spjalli okkar. Því lauk ekki fyrr en blessaður fjölmiðlafulltrúinn birtist aftur, talsvert brúnaþyngri en tveimur kvöldum áður og sagði höstugur: „Ertu aftur að tala við Íslendinga? Komdu, það bíða allir eftir þér!“
  • Pollrólegur kvaddi Þórir, sneri á hæli með bros á vör og bakpoka á annarri öxl. Eins og hann væri að fara heim eftir hversdagslegan leik en ekki í miðri titilvörn á heimsmeistaramóti og klukkan að halla í tíu að kvöldi. „Takk fyrir spjallið, við sjáumst.“
  • Svona eiga sýslumenn að vera!

Ívar Benediktsson, [email protected].

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -