- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eru einnig á sigurbraut í Noregi

Orri Freyr Þorkelsson í leik með Elverum. Mynd/EPA

Það ekki aðeins í Svíþjóð sem íslenskir handknattleiksmenn voru á sigurbraut í dag. Þeir sem leika í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla gátu einnig farið heim með sigurbros á vör eftir sínar viðureignir.


Orri Freyr Þorkelsson skoraði þrjú mörk þegar Noregsmeistarar Elverum unnu sinn 23. leik í deildinni á keppnistímabilinu. Elverum lagði Runar, 27:25, í Terningen Arena í Elverum. Aron Dagur Pálsson var einnig í liði Elverum en skoraði ekki mark að þessu sinni. Elverum er sem fyrr með yfirburði í deildinni, hefur ekki tapað einu stigi til þessa.


Drammen, sem er í öðru sæti úrvalsdeildar, vann ØIF Arendal Elite í miklum markaleik í Drammenhallen, 42:32. Óskar Ólafsson skoraði tvö af mörkum Drammenliðsins og hinn hálfíslenski Viktor Petersen Norberg skoraði fimm sinnum. Drammen er 11 stigum á eftir Elverum.

Skin og skúrir í úrvalsdeild kvenna

Í úrvalsdeild kvenna fóru ekki allir Íslendingar jafn glaðir heim. Axel Stefánsson var þó væntanlega sínu kátastur því liðið sem hann þjálfar, Storhamar, vann Fredrikstad Bkl, 30:26, á heimavelli.


Fyrrverandi samstarfsmaður Axels frá tíma hans með íslenska kvennalandsliðinu, Elías Már Halldórsson þjálfar Fredrikstad.


Birta Rún Grétarsdóttir var ekki með Oppsal í dag þegar liðið tapaði á útivelli fyrir Flint Tønsberg, 26:18.


Storhamar er í öðru sæti úrvalsdeildar með 36 stig að loknum 20 leikjum. Liðið er fimm stigum og einum leik á eftir Evrópumeisturum Vipers Kristiansand sem tróna á toppnum sem fyrr.


Fredrikstad Bkl. er í níunda sæti og verða leikmenn að bíta í skjaldarrendur til að komast upp í hóp átta efstu liða sem öðlast sæti í úrslitakeppninni í vor.


Oppsal er í basli í næst neðsta sæti og í verulegri fallhættu þegar fimm umferðir eru óleiknar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -