- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Erum að fara í hörkuleik á morgun

Arnar Pétursson leggur línurnar á æfingu í Höllinni á Hásli síðdegis. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Við erum að fara í hörkuleik á morgun. Ég geri ekki ráð fyrir öðru,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik í samtali við handbolta.is fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Höllinni á Hálsi í Þórshöfn síðdegis en á morgun mætast þar landslið Íslands og Færeyja í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik kvenna.

„Það eru feikigóðir leikmenn í færeyska liðinu sem eru mjög sterkar maður á móti manni. Fyrir vikið mun reyna mjög á varnarleik okkar,“ sagði Arnar og bætti við að unnið hafi verið í að þróa varnarleik íslenska landsliðsins jafnt og þétt þannig að hann verði leikinn framar en áður.

„Ef við ætlum að sitja niðri á sex eða sjö metrum gegn þeim færeysku þá munu flestar sóknir þeirra enda með marki eða vítakasti. Hjálparvörnin verður að vera til staðar,“ sagði Arnar sem stýrði nærri klukkustundar æfingu síðdegis þar sem farið var yfir nokkur áhersluatriði fyrir morgundaginn.


Arnar hefur farið vel yfir leik Svía og Færeyinga á fimmtudaginn í Uppsölum. Hann sagði að ekkert nýtt hafi komið þar fram. Fremur hafi fengið staðfesting á þeim leik og leikaðferðum sem Færeyingar leika. „Frammistaðan var nokkuð í takt við það sem við höfum séð áður.“

Búist er við allt að þúsund áhorfendum á leikinn á morgun og rífandi góðri stemningu. Þess utan eru leikmenn færeyska landsliðsins særðir eftir 17 marka tap fyrir Svíum á fimmtudaginn, ansi slæmur skellur í síðari hálfleik eftir góðan fyrri hálfleik.

„Það verður bara gaman að því ef tekst að ná upp góðri stemningu á leiknum. Umgjörðin verður þá bara ennþá betri.“

Spurður hvort hann væri bjartsýnn fyrir viðureignina svaraði Arnar: „Ég er að minnsta kosti bjartsýnn að við náum alvöru leik gegn þeim og leggjum allt í sölurnar. Þá held ég að þetta geti orðið skemmtilegt á morgun,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is í Þórshöfn í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -