- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Erum ekki komnir til þess að horfa upp á stúku

- Auglýsing -

„Það eru forréttindi og gaman að vera komnir í þessa stöðu og við verðum að njóta þess,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik spurður út í undanúrslitaleikinn við fjórfalda heimsmeistara Danmerkur í undanúrslitum Evrópumóts karla á þeirra heimavelli í kvöld fyrir framan 14 þúsund áhorfendur í Jyske Bank Boxen í Herning á Jótlandi. Leikurinn hefst klukkan 19.30.

Viljum meira

„Við erum ekki komnir hingað til þess að horfa upp á stúku. Við viljum meira en til þessa höfum við ekki unnið neitt. Vissulega er frábært að komast í undanúrslit. Undirbúningurinn verður að vera góður og að sama skapi verðum við að mæta með fullt sjálfstraust í leikinn við frábært danskt landslið á heimavelli þess,“ segir Snorri Steinn.

Eru ekki ósigrandi

„Ég held að með mjög góðri frammistöðu sé hægt að vinna Dani. Gleymum því ekki að Danir hafa tapað einum leik á mótinu rétt eins og við. Danir eru ekki ósigrandi þótt þeir séu með frábært lið. Við berum virðingu fyrir því sem þeir hafa afrekað á handboltavellinum á síðustu árum.

Við erum líka góðir og ekki komnir í undanúrslit fyrir tilviljun heldur vegna frammistöðu okkar á mótinu. Góð frammistaða í leiknum við Dani getur skilað okkur langt,“ segir Snorri Steinn.


Nokkuð hefur verið fjallað um þann mun sem er í undirbúningi liðanna fjögurra sem eru í undanúrslitum. Meðan Danir og Þjóðverjar hafa verið í Herning frá upphafi móts og gátu nýtt frídaginn í gær til þess að safna kröftum fór verulegur hluti gærdagsins hjá Íslendingum og Króötum í ferðalag og að koma sér fyrir á nýjum stað.

Glórulaust skipulag

Snorri sagði skipulag og aðstöðumun liðanna vera óviðunandi. „Þetta er glórulaust skipulag. Ég hef hins vegar kosið að taka þann pól í hæðina að láta þetta fara sem minnst í taugarnar á mér. Ég er í þeim sporum að búa liðið eins vel undir leikinn við Dani og mögulegt er og vinna í mjög sérstökum aðstæðum eins vel og kostur er,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik, í viðtali við handbolti.is í gær.

Leikur Danmerkur og Íslands í undanúrslitum EM karla í handknattleik hefst klukkan 19.30 í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -