„Við erum svo sannarlega í sjöunda himni með að vera komnir í fjögurra liða úrslit og eiga tækifæri til að gera betur,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U18 ára landsliðs karla í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag eftir að landsliðið innsiglaði keppnisrétt í undanúrslitum Evrópumótsins í Podgorica í Svartfjallalandi. Í kvöld skýrist hver verður andstæðingur Íslands í undanúrslitum síðdegis á morgun eða annað kvöld.
Spennufall og gleði
„Það var mikil gleði í leikslok og spennufall hjá okkur,“ sagði Heimir ennfremur sem var í gönguferð í sterkjuhita í Podgorica ásamt Magnúsi Inga Stefánssyni markvarðaþjálfara þegar handbolti.is sló á þráðinn góða.
Sigurinn á Noregi var afar öruggur, 31:25, en mestur varð munurinn 12 mörk. Reyndar skipti sigurinn einn og sér aðalmáli en mikilvægt var samt í ljósi þess hversu mikilvægt var að vinna viðureignina að missa hana aldrei niður í spennu.
Sendum strax skýr skilaboð
„Við erum mjög ánægðir með hversu kröftuglega við mættum til leiks. Menn sendu strax þau skilaboð að við ætluðum ekki að hleypa leiknum upp í spennu og óvissu. Vörnin var frábær og Jens [Sigurðarson] fór á kostum í markinu. Allt skilaði þetta sér í auðveldum mörkum. Við vorum með góð tökum á leiknum snemma og stýrðum leiknum til enda.“
Mjög stoltir
„Við erum rosalega stoltir og ánægðir með strákana,“ sagði Heimir sem vildi lítið gefa út um hvort árangurinn væri meiri en væntingar hafi verið til þegar lagt var af stað frá Keflavíkurflugvelli að kveldi 5. ágúst.
Verkefni fyrir fjögur landslið
„Vissulega er það alltaf markimið að ná sem lengst á mótum. Þegar við komum hingað var fyrsta markmiðið að komast í hóp þrettán til fjórtán efstu og tryggja þessum hópi farseðil á HM 19 ára á næsta ári og inn á EM 20 ára eftir tvö ár. Því markmiði náðum við strax með því að vinna okkar riðil og öðlast sæti í átta liða úrslitum. Sú staðreynd fleytti Íslandi inn á EM 18 ára eftir tvö ár og nú er ljóst að eftir við náðum inn í fjögurra liða tryggðum við 17 ára landsliðinu farseðilinn á Ólympíuhátið Evrópuæskunnar á næsta sumri. Árangur okkar hefur þar með skapað yngri landsliðunum fjögur verkefni á næstu tveimur árum. Það er ágætt,“ sagði Heimir eldhress á göngunni um Podgorica.
Næsta markmið
„Næsta markmið okkar er að vinna til verðlauna,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U18 ára landsliðsins í handknattleik karla.
EMU18 karla: Leikir, úrslit og staðan, milliriðlar og sætisleikir