- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Erum mjög stolt af árangrinum“

Svavar Vignisson þjálfari Selfoss ásamt Gauta Orrasyni, dóttursyni, og bikarnum sem Selfossliðið vann undir hans Svavars í Grill66-deild kvenna. Mynd/Ívar.
- Auglýsing -

„Okkur hefur gengið ofsalega vel og við erum mjög stolt af árangrinum,“ sagði Svavar Vignisson þjálfari Selfossliðsins sem vann Grill66-deild kvenna og fékk sigurlaun sín afhent í dag að loknum síðasta leiknum í deildinni. Selfoss leikur þar með í Olísdeild á nýjan leik eftir fjögurra ára veru í Grill66-deildinni.


Keppnin um efsta sætið var á milli Selfoss og ÍR á endasprettinum en FH var ekki langt undan. Þegar upp var staðið munaði þremur stigum á Selfossi og ÍR. Munaði þar ekki hvað síst um sigur Selfossliðsins á ÍR-ingum fyrir fáeinum vikum í Austurbergi.


„Við urðum að vinna ÍR á útivelli í úrslitaleik deildarinnar. FH var rétt á eftir okkur svo við máttum ekkert misstíga okkur. Við komumst hjá því og erum ánægð með að hafa náð þessum áfanga og komast hjá því að taka þátt í umspili um sæti í Olísdeildinni.“

Stelpurnar eiga hrós skilið

Svavar segir að vel hafi gengið að halda leikmönnum Selfossliðsins við efnið en flestar hverjar eru ungar og lítt reyndar að standa í spennandi toppbaráttu. „Stelpurnar eiga mikið hrós skilið fyrir sína vinnu. Einnig hjálpaði það okkur mikið að ekkert var um slæm og langvarandi meiðsli. Þar af leiðandi gekk allt upp,“ sagði Svavar sigri hrósandi.

Margir leikmenn á höfuðborgarsvæðinu

Svavar segir að í ljósi reynslu annarra liða sem hafa verið í sömu sporum á síðustu árum og Selfoss er í núna sé ljóst að styrkja verði liðið fyrir átökin á næsta keppnistímabili. „Skemmtilegast væri að fá styrkinguna í þeim stelpum sem eru frá Selfossi og eru í bunkum með liðum á höfuðborgarsvæðinu. Í því væri einnig mikil rómantík ef það tækist.

Þarf að ræða kosti og galla

Styrleikamunurinn á milli Olísdeildarinnar og Grill66-deildarinnar er mikill sem sást vel þegar við og FH lékum á móti Haukum og Stjörnunni í bikarnum og töpuðum með að minnsta kosti tíu marka mun, hvort lið. Í ljósi þessa er að mínu mati rétt að ræða kosti og galla þess að vera með eina deild kvenna á Ísllandsmótinu. Það er alveg umræðunnar virði og það af alvöru.“

Liðið er öflugt

Spurður hvort ekki sé farið að huga að framhaldinu varðandi leikmannahópinn segir Svavar svo vera. Hann heldur spilunum þétt að sér. „Við þurfum ekki að styrkja hópinn mjög mikið en eitthvað samt. Liðið er mjög öflugt en það væri ekki slæmt að fá eitthvað af Selfossstelpum heim,“ sagði Svavar.

Stropus verður áfram

Ljóst er að Roberta Stropus verður áfram með Selfossliðinu en hún kom til liðsins fyrir þetta tímabil og reyndist happafengur. „Til viðbótar eigum við eftir að semja við nokkrar sem þegar eru í liðinu. Vonandi vilja þær stíga inn á stóra sviðið með uppeldisfélaginu.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -