- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Erum reynslunni ríkari og og tveimur árum eldri

Sebastian Alexandersson þjálfari HK fylgist einbeittur með leik sinna manna. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Tíu dagar eru síðan nýliðar Olísdeildar karla, HK, hófu æfingar á nýjan leik eftir sumarleyfi. Sebastian Alexandersson þjálfari HK segir mikinn hug vera í leikmönnum og þjálfurum fyrir komandi keppnistímabili. Allir séu tveimur árum eldri og reynslunni ríkari frá því að HK var síðast í Olísdeildinni, leiktíðina 2021/2022.

Vorum ekki langt á eftir

„Við metum möguleika okkar í deildinni vera góða. Við erum með nánast sama leikmannahóp og síðast, reynslunni ríkari og tveimur árum eldri.

Síðast vorum við ekki langt á eftir neinu liði í deildinni og náðum að gera leik úr öllum okkar viðureignum nema tveimur. Síðan þá höfum unnið skipulega í öllum okkar málum og erum því bjartsýnir á að við séum á þeim stað að geta náð okkar markmiðum,“ segir Sebastian við handbolta.is.

Ari Sverrir í stað Símons

Litlar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum frá síðasta keppnistímabili. Unglingalandsliðsmaðurinn Símon Michael Guðjónsson gekk til liðs við FH. Í staðinn er Ari Sverrir Magnússon kominn í herbúðir HK frá Stjörnunni og mun leysa stöðuna í vinstra horni. „Annars er þetta sami hópur og á síðasta keppnistímabili,“ segir Sebastian.

HK-ingar fagna sigri í Grill 66-deildinni í vor. Mynd/HK

Erum sáttir við hópinn

Spurður hvort hann hafi í hyggju að sækja liðsauka svarar Sebastian því að hann útiloki ekkert.

„Já og nei. Við erum að skoða eitt eða tvö mál en ekkert meira en það eins og er. Við erum mjög sáttir við þann hóp sem er búinn að vera með okkur í þessari vegferð frá upphafi og er enn til staðar.“

Meðalaldurinn er 22 ár

Sebastian segir talsverðan efnivið vera fyrir hendi hjá HK og engin ástæða til þess að kvíða. Þess utan þá er meðalaldur meistaraflokksliðsins um 22 ár og elstu leikmenn bara 27 ára gamlir. Engu að síður séu fyrir hendi yngri leikmenn sem banki á dyrnar, ef svo má segja.

Fá sín verkefni

„Fimm leikmenn úr þriðja flokki voru valdir til þess að æfa með meistaraflokki á undirbúningstímabilinu og við munum láta þá alla hafa verkefni í vetur hvort sem það verður í Olís eða í Grillinu.“

Æfingaferð til Svíþjóðar

Ekki verður aðeins æft af krafti hér á landi heldur fer HK í æfingaferð til Svíþjóðar í næsta mánuði. Ytra er gert ráð þremur æfingaleikjum en annars reiknar Sebastian með alls sjö æfingaleikjum á næstu vikum.

„Eins og staðan er í dag þá spilum við sjö æfingaleiki. Þar af verða þrír í UMSK mótinu. Eftir Svíþjóðarferðina eigum við æfingaleik við Val þegar við komum úr ferðinni. Líklega mun þetta vera niðurstaðan en við bætum kannski við ef við teljum það nauðsynlegt,“ segir Sebastian Alexandersson sem er að hefja sitt þriðja keppnistímabil sem þjálfari HK ásamt Guðfinni Kristmannssyni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -