- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Erum að segja að okkur sé alvara

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Þær voru lykilmenn í landsliðinu um árabil og eru þekktar fyrir að vera sterkir karakterar og sigurvegarar sem við fögnum að fá til liðs við okkur,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari kvennalandsliðsins í gær, þegar greint var frá ráðningu Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur og Hrafnhildar Óskar Skúladóttur, í þjálfarateymi kvennalandsliðsins í handknattleik.

„Með þeim kemur mikil reynsla inn í hópinn og því ber meðal annars að fagna,“ sagði Arnar ennfremur sem sjálfur hefur framlengt samning sinn við HSÍ til næstu þriggja ára eins og handbolti.is sagði frá í gær.

„Þeirra hlutverk verður að vinna með B-landsliðinu sem nú fær aukið vægi og fleiri verkefni sem er mikið fagnaðarefni. Með því móti náum við snertiflöt við fleiri leikmenn og búum þá undir það skref að koma inn í A-liðið þegar þörf verður á,“ sagði Arnar á blaðamannafundi HSÍ í gær.

„Markmið okkar á næstu árum er að stíga skref fram á við. Við teljum okkur geta gert betur en við höfum gert síðustu ár. Ég hef sagt það áður að mér finnst ekki viðunandi að kvennalandsliðið hafi ekki farið á nema þrjú stórmót á sama tíma og karlalandsliðið fer á hvert mótið á eftir öðru. Þessu viljum við breyta en það mun taka sinn tíma. Mér finnst sem HSÍ og við vera að taka fyrstu skrefin til þess að bæta stöðuna. Bæði með því að koma á fót B-landsliði, ráða tvær hörkudömur inn í þjálfarateymið og bæta við leikjum hjá U18 ára landsliðinu. Með þessu erum við að segja að okkur sé alvara með því sem við segjum að markmiðið sé að nálgast betri hóp landsliða í Evrópu á næstu árum. Í dag erum við talsvert á eftir þeim,“ sagði Arnar.

Bæði landslið á móti í Tékklandi

B-landsliðið verður við æfingar alla næstu viku og mun fara ásamt A-landsliðinu á alþjóðlegt móti í Tékklandi síðla í nóvember þar sem bæði landsliðin leika þrjá leiki hvort. Arnar sagði að þau skref sem HSÍ væri að stíga vera stór og mikilvæg á lengri leið í átt að sterkari kvennalandsliðum á næstu árum.

F.v. Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, Ágúst Þór Jóhannsson, Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, Hrafnhildur Ósk Skúladóttir og Arnar Pétursson. Mynd/HSÍ

„Þarna gefst okkur kostur á að sjá þá leikmenn sem eiga möguleika á að koma inn í A-landsliðið á næstu árum. Þeim verður hjálpað til þess að kynnast þeim hlutverkum sem við verum með í A-landsliðinu.“

Fleiri leikir hjá yngra landsliði

Til viðbótar þá tekur U18 ára landsliðið, sem stóð sig afar vel í B-deild Evrópumótsins í Litáen í ágúst sem U17 ára landslið, þátt í æfingaleikjum í Danmörku í október. Eins og kom fram á handbolta.is á dögunum eru leikirnir við Dani liður í undirbúningi íslenska liðsins fyrir undankeppni í A-deild EM hjá þessum aldursflokki sem haldin verður í nóvember.

„Það að Danir bjóði landsliði frá okkur til æfingaleikja er mjög ánægjulegt. Það sýnir ef til vill að við erum komnir með liðið á góðan stað. Svoleiðis nokkuð hefur vantað á síðustu árum. Þegar allt verður talið saman mun U18 ára landsliðið hafi leikið 11 leiki á þessu ári sem er gríðarlega mikilvægt til framtíðar litið. Þetta er mjög jákvæð þróun,“ sagði Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -