Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur mörk og átti sex stoðsendingar þegar SC Magdeburg vann króatíska liðið Nexe, 32:26, í C-riðli Evrópudeildarinnar í handknattleik í Magdeburg í kvöld. Þar með tyllti Magdeburg sér á ný í efsta sæti riðilsins en það hefur níu stig að loknum fimm leikjum. Þess utan á Magdeburg leik til góða gegn Sävehof frá Svíþjóð sem er stigi á eftir í öðru sæti.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var ekki í leikmannahópi SC Magdeburg í kvöld en hann sat einnig yfir í Evrópuleiknum fyrir viku en mætti síðan galvaskur til leiksí þýsku 1. deildinni á sunnudaginn.
Bjarki tapaði fyrir Viktori Gísla
Viktor Gísli Hallgrímsson og samherjar í hans í danska liðinu GOG gerðu sér lítið fyrir og lögðu þýsku bikarmeistarana Lemgo, 34:28, á heimavelli í kvöld. Sigur GOG var mjög sannfærandi. Liðið var sterkara frá upphafi og hafði m.a. fimm marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 15:10.
Viktor Gísli kom ekkert við sögu í leiknum. Bjarki Már Elísson var hinsvegar markahæstur hjá Lemgo með átta mörk í 11 skotum. Emil Madsen var markahæstur hjá GOG með níu mörk og nafni hans, Emil Lærke, var næstur með sjö.
Aðalsteinn fagnaði í Aþenu
Aðalsteinn Eyjólfsson og hans lærisveinar í Kadetten Schaffhausen gerðu góða ferð á erfiðan heimavöll AEK í Aþenu og unnu með þriggja marka mun, 31:28. Þetta var annar sigur Kadetten í D-riðli keppninnar en liðið hefur verið óheppið í mörgum leikja sinna til þessa og gæti með örlítilli heppni verið með fleiri stig en raun er á.
Áfram gengur illa
Áfram gengur illa hjá Kristjáni Erni Kristjánssyni, Donna, og samherjum hans í franska liðinu PAUC. Þeir töpuðu á Spáni í kvöld fyrir La Rioja, 33:26. PAUC rekur lestina í C-riðli með eitt stig eftir sex leiki. Donni skoraði fjögur mörk að þessu sinni.
Þetta var síðasta umferðin í Evrópudeildinni á árinu. Þráðurinn verður tekinn upp á ný í febrúar að loknum Evrópumeistaramóti landsliða í Ungverjalandi og Slóvakíu.
Það var ágæt stemning í keppnishöllinni í Nantes í kvöld þrátt fyrir allt.
Pluie d’étoiles ✨✨✨ à #Nantes à la #hallXXL pour soutenir le “H” ! #HBCNBENFICA #SagaXXL @ehfel_official pic.twitter.com/ejVNPDJoab
— HBCNantes (@HBCNantes) December 7, 2021
Úrslit kvöldsins og staðan:
A-riðill:
Tatran Presov – Toulouse 19:31.
Bidasoa – Wisla Plock 28:29.
Pfadi Winterthur – Füchse Berlin, frestað.
Staðan:
B-riðill:
GOG – Lemgo 34:28.
Cocks – Medvedi 27:33.
Nantes – Benfica 33:33.
Staðan:
C-riðill:
Gorenje Velenje – Sävehof 31:35.
La Rioja – PAUC 33:26.
Magdeburg – Nexe 32:26.
Staðan:
D-riðill:
AEK Aþena – Kadetten 28:31.
Tatabánya – Nimes 30:38.
Pelister – Sporting 31:25.
Staðan: