- Auglýsing -
- Auglýsing -

Evrópumeistarar standa vel að vígi – tveir hnífjafnir leikir

Leikmenn Esbjerg fagna sigri í Búkarest í gær. Mynd/EPA

Fyrri leikirnir í 8-liða úrslitunum í Meistaradeild kvenna fóru fram um helgina. Veislan hófst með leik Brest og Györ á laugardaginn en leikir þessara liða hafa í gegnum tíðina verið jafnir og spennandi. Engin breyting varð á að þessu sinni. Jafntefli 21-21 var niðurstaðan. Markverðir liðanna voru í aðalhlutverkum. Sandra Toft markvörður Brest var með 42% markvörslu og hjá Györ áttu frönsku landsliðsmarkverðirnir, Laura Glauser og Amandine Leynaud góðan leik. Glauser hóf leikinn og varði níu skot, þar af tvö vítaköst, í fyrri hálfleik. Leynaud kom svo inná í seinni hálfleik og hún lauk leiknum með 53% markvörslu.

Þess má geta til gamans að Toft gengur til liðs við Györ í sumar.


Evrópumeistarar Vipers frá Noregi gerðu góða ferð til Slóveníu og unnu Krim örugglega, 32-25 og eru í vænlegri stöðu fyrir seinni leik liðanna sem fer fram um næstu helgi.

Viðureign CSM og Esbjerg í Búkarest var sannkallaður naglbítur. Gestirnir frá Danmörku voru örlítið beittari í fyrri hálfleik og höfðu þriggja marka forystu, 12-9, í hálfleik. Heimakonur náðu að stilla saman strengi í hálfleik og komu öflugar til leiks í seinni hálfleik. Jafnt var nánast á öllum tölum allt til loka. Vilde Mortensen Ingstad náði þó að tryggja Esbjerg eins marks sigur 26-25 þegar hún skoraði á lokasekúndum leiksins.

Mette Tranborg leikmaður Esbjerg reyndist CSM-liðinu erfið í gær. Mynd/EPA

Úrslit helgarinnar

Brest 21-21 Györ (11-8)

 • Á síðustu leiktíð lauk báðum leikjum liðanna í riðlakeppninni með jafntefli og þá áttust liðin við í undanúrslitum þar sem að Brest hafði betur í vítakastkeppni eftir að jafnt var eftir venjulegan leiktíma.
 • Brest byrjaði leikinn mun betur og eftir nítján mínútna leik var liðið með fimm marka forystu, 10-5. Þá kom slæmur kafli hjá franska liðinu sem skoraði aðeins eitt mark það sem eftir lifði af hálfleiknum.
 • Györ hélt áfram að elta í seinni hálfleik en komast yfir, 19-18, þegar um sjö mínútur voru eftir af leiknum.  Það var í eina skiptið sem ungverska liðið var yfir.
 • Estelle Nze Minko náði að jafna metin, 21-21, fyrir Györ þegar að 24 sekúndur voru til leiksloka.
 • Helene Fauske var markahæst í liði Brest með fimm mörk en hjá Györ var Veronica Kristiansen markahæst með sex mörk.

Krim 25-32 Vipers (10-14)

 • Þetta var þriðji sigurleikur Vipers á Krim á þessari leiktíð.
 • Krim náði forystu, 4-3, á sjöttu mínútu, en þá náði Vipers að þétta vörnina og fór með fjögurra marka forystu inní hálfleikinn.
 • Katrine Lunde átti stórleik í marki norska liðsins. Hún ásamt Önu Debelic lögðu grunninn að því að Vipers náði sjö marka forskoti,  20-13, á 42. mínútu.
 • Katrine Lunde varði 15 af 39 skotum sem hún fékk á sig í leiknum sem gerir 38% markvörslu.
 • Ana Debelic var markahæst í liði Vipers með átta mörk. Hjá Krim var Ana Gros markahæst með átta mörk.

Vilde Mortensen Ingstad skoraði sigurmark Esbjerg í Búkarest í gær. Mynd/EPA

CSM 25-26 Esbjerg (9-12)

 • Bæði lið áttu erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik en Esbjerg var þó aðeins betra og var með þriggja marka forystu í hálfleik.
 • Cristina Neagu fór fyrir liði CSM í seinni hálfleik. Þær rúmensku náðu að minnka muninn niður í eitt mark nokkrum sinnum í hálfleiknum. Á 53. mínútu náði Esbjerg fjögurra marka forystu, 24-20.
 • Góð frammistaða Tess Wester, markvarðar CSM, á lokakafla leiksins gerði að verkum að rúmenska liðið náði fjögurra marka áhlaupi og jafnaði metin, 24-24, þremur mínútum fyrir leikslok. Esbjerg náði að skora sigurmark leiksins á lokasekúndunum.
 • Cristina Neagu leikmaður CSM var markahæst í leiknum með níu. Hún hefur þar með skorað 103 mörk í Meistaradeild kvenna á leiktíðinni og er markahæst.
 • Kristine Breistol skoraði sjö mörk fyrir Esbjerg og var valin besti leikmaður leiksins.


Síðari leikirnir fara fram um næstu helgi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -