Norska landsliðið í handknattleik kvenna, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, fór langt með að tryggja sér sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í gærkvöldi. Í fyrsta sinn á mótinu reyndi verulega á heims- og Evrópumeistarana þegar þeir mættu grönnum sínum frá Svíþjóð í hörkuleik í Ljubljana og unnu, 27:25.
Leikmenn norska liðsins og Þórir þjálfari þurftu að tefla mörgu af sínu besta fram í leiknum til þess að knýja fram sigur. Sænska landsliðið hafði dregið mikinn lærdóm af hörmulegri frammistöðu sinni í fyrri hálfleik gegn Dönum á fimmtudaginn. Svíar voru síst lakari en Norðmenn frá upphafi leiksins. Þeir gáfu ekki eftir fyrr en á síðustu 10 mínútunum. Þá kom munurinn á liðunum í ljós.
Staðan var jöfn í hálfleik, 13:13. Fram eftir öllum síðari hálfleik var viðureignin í járnum. Markverðir beggja liða, hin þrautreynda Katrine Lunde hjá Noregi, og Jessica Ryde í sænska markinu vörðu vel. Henny Reistad átti enn einn stórleikinn með norska landsliðinu á mótinu.
Noregur komst tveimur mörkum yfir, 23:21, þegar tíu mínútur voru til leiksloka og var þremur mörkum yfir, 27:24, þegar skammt var til leiksloka.
Noregur hefur þar með sex stig eftir þrjá skráða leiki í milliriðlum. Danir eru einnig með sex stig en hafa leikið einum leik fleira. Norska liðið mætir Slóvenum annað kvöld en þá sitja Danir yfir. Sigur á Slóvenum fleytir Noregi áfram í undanúrslit og væntanlega einnig Dönum sem standa höllum fæti í innbyrðis viðureign gegn Slóvenum. Svíar geta vart gert sér vonir um annað en að leika í besta falli um fimmta til sjötta sætið.
Mörk Noregs: Henny Ella Reistad 7, Vilde Ingstad 6, Nora Mørk 4, Stine Oftedal 4, Malin Larsen 1, Kristine Breistøl 1, Sunniva Næs 1, Thale Rushfeldt 1, Maren Aardahl 1, Stine Skogrand 1.
Varin skot: Katrine Lunde 11, 32% – Silje Solberg 2, 67%.
Mörk Svíþjóðar: Jenny Carlson 9, Linn Blohm 7, Jamina Roberts 3, Nathalie Hagman 3, Melissa Petren 2, Elin Hansson 1.
Varin skot: Jessica Ryde 8, 29% – Johanna Bundsen 1, 17%.
Staðan í milliriðli 1:
Noregur | 3 | 3 | 0 | 0 | 91 – 70 | 6 |
Danmörk | 4 | 3 | 0 | 1 | 106 – 83 | 6 |
Slóvenía | 3 | 2 | 0 | 1 | 76 – 77 | 2 |
Svíþjóð | 3 | 1 | 0 | 2 | 81 – 74 | 2 |
Króatía | 4 | 1 | 0 | 3 | 79 – 102 | 2 |
Ungverjaland | 3 | 0 | 0 | 3 | 67 – 82 | 0 |
Leikir í dag:
Holland – Spánn, kl. 17 – sýndur á RÚV2.
Frakkland – Svartfjallaland, kl. 19.30 – sýndur á RÚV2.
EM kvenna22 – milliriðlakeppni leikjadagskrá, úrslit