- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eyjamenn voru teknir í kennslustund

Byrnjólfur Snær Brynjólfsson leikmaður Hauka. Mynd/Haukar topphandbolti
- Auglýsing -

Haukar unnu öruggan sigur á ÍBV, 30:23, í annarri umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Schenkerhöllinni í dag. Í leik sem flestir áttu von á að gæti orðið jafn og spennandi lék aldrei vafi á hvort liðið væri sterkara. Eyjamenn voru hreinlega teknir í kennslustund. Afar vel útfærður leikur Haukanna, ekki síst framúrskarandi varnarleikur og markvarsla, var nokkuð sem leikmenn ÍBV áttu engin svör við. Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður, fór á kostum í marki Hauka að baki frábærri vörn og var með tæplega 50% hlutfallsmarkvörslu.


Staðan í hálfleik var 14:10, og minnstur var munurinn tvö mörk snemma í síðari hálfleik.


Haukar hafa þar með fjögur stig á toppnum með Val. ÍBV er hinsvegar með hópi annarra liða með tvö stig þegar tvær umferðir eru að baki í deildinni.
Haukar byrjuðu leikinn frábærlega í dag. Varnarleikurinn var frábær og Björgvin Páll Gústavsson vel með á nótunum fyrir aftan. Sóknarleikurinn gekk lipurlega þar sem 5/1 vörn Eyjamanna var sundirspiluð. Eftir aðeins átta mínútur var staðan, 8:2, Haukum í vil. ÍBV tók þá leikhlé og endurskipulagði sinn leik.


Eftir 20 mínútur var munurinn enn sex mörk, 10:4, þá höfðu Haukar brennt af tveimur vítaköstum. Petar Jokanovic sá við leikmönnum Hauka en virtist að öðru leyti ekki ná sér á strik enda tókst Haukum oft og tíðum að sundirspila vörnina.


Vörn Hauka hélt vel áfram og Björgvin var við sama heygarðshornið í markinu. Mark frá Kára Kristjáni Kristjánssyni af línunni og í kjölfarið hraðaupphlaupsmark Theodórs Sigurbjörnsson opnuðu leikinn fyrir ÍBV og skyndilega var munurinn kominn niður í fjögur mörk, 10:6.

Haukar héldu ágætlega á málum fram að hálfleik. Þeim gekk illa að ráða við Kára á línunni hjá ÍBV. En það var kannski ákveðinn fórnarkostnaður þegar reynt er að loka fyrir aðra sóknarmenn ÍBV.
Haukum brást bogalistin í þriðja vítakastinu eftir að Björn Viðar Björnsson var kominn í Eyjamarkið. Fjögurra marka forskot í hálfleik, 14:10, var minna en möguleiki var á, eftir afar góðan leik Haukaliðsins í fyrri hálfleik.


ÍBV fóru í sjö á sex í sókninni í síðari hálfleik, þ.e. tóku markvörð sinn út af þegar liðið sótti og bætti sóknarmanni við í staðinn. Það skilaði einhverjum árangri en liðið fékk einnig á sig ódýr mörk í staðinn sem er sá fórnarkostnaður sem fylgir þessu sóknarleik.


ÍBV tókst að minnka muninn niður í tvö mörk, 16:14, snemma í síðari hálfleik. Aftur skildu leiðir og munurinn var sex mörk, 21:15, þegar síðari hálfleikur var hálfnaður. Björgvin Páll fór áfram á kostum í markinu og var með um og yfir 50% hlutfallsmarkvörslu.
ÍBV tókst aldrei að ógna forskoti ÍBV og hleypa spennu í leikinn eftir að hafa minnkað muninn í tvö mörk snemma í fyrri hálfleik. Haukar héldu föstum tökum sínum á viðureigninni allt til leiksloka og unnu góðan sigur með framúrskarandi spilamennsku á báðum endum vallarins auk einstakrar frammistöðu Björgvins Páls.


Orri Freyr Þorkelsson skoraði átta mörk fyrir Hauka og var markahæstur þeirra. Geir Guðmundsson skoraði sex mörk og Brynjólfur Snær Brynjólfsson fjögur.
Theodór Sigurbjörnsson var markahæstur hjá ÍBV með sjö mörk. Hákon Daði Styrmisson og Kári Kristján Kristjánsson skoruðu fimm mörk hvor.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -