- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fá gálgafrest fram í fyrri hluta apríl

Illa horfir fyrir pólska meistaraliðinu Kielce um þessar mundir. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Framtíð pólska meistaraliðsins Industria Kielce er áfram í óvissu vegna bágrar fjárhagsstöðu. Ekki hefur tekist að afla nýrra samstarfsfyrirtækja eftir að drykkjarvörufyrirtæki Van Pur sagði upp samningi undir lok síðasta árs, hálfu ári áður en samningurinn átti að renna úr. Félagið fékk um þriðjung tekna sinna í gegnum samninginn við pólska drykkjavörurisann.

Þungur róður

EMKielce segir að forsvarsmenn Kielce hafi fengið gálgafrest fram í fyrri hluta apríl til að bjarga félaginu. Fyrri frestur átti að renna nú um mánaðarmótin. Áður hafði þeim tekist að bjarga félaginu frá gjaldþroti í lok janúar. Vonuðust þeir þá eftir að hafa tryggt framtíð félagsins í lok mars. Svo virðist sem lítið sem ekkert hafi hlaupið á snærið.

Lítil aðstoð frá bænum

Ef ekki tekst að afla nýrra samstarfsfyrirtækja er ljóst að rekstur félagsins dregst verulega saman og að stór hluti leikmannahópsins verður að hverfa á braut. Yfirvöld í Kielce, með Bogdan Wenta fyrrverandi landsliðsmann og þjálfara í broddi fylkingar, er ekki tilbúin að leggja fram nema um jafnvirði 15 milljóna króna í púkkið. Er það um sjötti hlut þess sem stjórnendur félagsins sóttust eftir sem framlag frá bæjaryfirvöldum.

Víst er að útlitið er ekki bjart. Fundað var með leikmönnum í vikunni þar sem spilin voru lögð á borðið.

Ungverjar ætla að grípa gæsina

Eins og sagt var frá í janúar þá renna stjórnendur ungverska liðsins Pick Szeged hýru auga til Dujshebaev-feðgana, Talant þjálfara og sona hans Daniel og Alex.

Eftir því sem ungverskir fjölmiðlar segja frá og EMKielce hefur fengið staðfest er áhugi stjórnenda Pick Szeged ekki bundinn við þremenningana. Þeir hyggjast einnig bera víurnar í Frakkana Dylan Nahi, Nicolas Tournat og Benoit Kounkoud auk þýska markvarðarins Andreas Wolff, fari allt í skrúfuna hjá Kielce.

Yfirburðalið árum saman

Kielce hefur verið yfirburðalið í karlaflokki í handknattleik í Póllandi um árabil. M.a. hefur það unnið pólska meistaratitilinn þrettán sinnum á síðustu fjórtán árum. Kielce vann Meistaradeild Evrópu vorið 2016 og lék til úrslita fyrir ári.

Kielce er komið í átta liða úrslit Meistaradeildar og mætir Bjarka Má Elíssyni og félögum í ungverska liðinu Veszprém.

Haukur Þrastarson er samningsbundinn Kielce.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -