- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vandi steðjar að pólska meistaraliðinu Kielce

Talant Dujshebaev þjálfari Kielce. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Stjórnendur pólska meistaraliðsins Łomża Industria Kielce leita logandi ljósi að fjársterkum samstarfsfyrirtækjum til samstarfs á næstu vikum og mánuðum. Takist ekki að lokka einhverja til samstarfs þykir ljóst að skera verði niður í útgjöldum sem hætt er við að komi niður á árangri innan vallar.


Haft er eftir eftir Bertus Servaas, forseta félagsins, á handball-world, að róðurinn sé þungur og illa gangi að fá sterk fyrirtæki til samstarfs.

Þjálfarinn sendi út neyðarkall

Nokkrum dögum fyrir jól sendi þjálfarinn, Talant Dujshebaev, frá sér yfirlýsingu á heimasíðu Kielce. Hún verður ekki skilin öðruvísi en sem neyðarkall til stuðningsmanna, stjórnenda í Kielceborg og fyrirtækja um að leggjast á árarnar til að koma megi í veg fyrir að illa fari.

Þriðjungur tekna hverfur

Ekki eru nema tvö og hálft ár síðan að Kielce var síðast í uppnámi þegar stórfyrirtæki dró sig út úr samstarfi. Þá tókst að fá stærsta drykkjarvöruframleiðanda Póllands, Van Pur, til samstarfs. Um leið var vörumerkið Łomża sett inn í heiti félagsins. Um þriðjungur tekna félagsins hefur komið í gegnum samninginn við Van Pur. Í haust sagði fyrirtækið upp samningnum frá og með ársbyrjun 2023 vegna falls í tekjum sem m.a. er rakið til stríðsins í nágrannaríkinu, Úkraínu.


„Við þurfum á verulegri aðstoð að halda til að fylla skarðið sem Lomza skilur eftir sig,“ segir Servaas forseti félagsins. „Við erum í kapphlaupi við tímann við að leita eftir nýjum samstarfsaðila. Leitin verður að hafa borið árangur áður en janúar verður á enda,“ segir forsetinn ennfremur.

Takist ekki að laða öflugt fyrirtæki til samstarfs er reiknað með að verulegur niðurskurður verði óhjákvæmilegur í lok keppnistímabilsins næsta vor með þeim afleiðingum að margir mjög öflugir leikmenn rói á önnur mið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -