- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fæ ekki oft tækifæri til að skora svona mörg mörk

Sandra Erlingsdóttir. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Ég fá ekki oft tækifæri til þess að skora öll þessi mörk,“ sagði Sandra Erlingsdóttir hress og kát þegar handbolti.is hitti hana að máli eftir átta marka sigur íslenska landsliðsins á ísraelska landsliðinu, 34:26, í fyrri viðureigninni í forkeppni HM á Ásvöllum í dag. Sandra fór á kostum og skoraði 11 mörk, þrjú úr vítaköstum. Það sem meira er að hún geigaði ekki á skoti.


„Það var gaman að þessu, sannkölluð veisla. Okkur gekk vel og mér líka. Það opnaðist vel fyrir mig og mér tókst að nýta tækifærin,“ sagði Sandra sem lék sinn 15. landsleik og hefur nú skorað 59 mörk.


Sandra var nokkuð sátt við leikinn, ekki síst í síðari hálfleik þegar betur gekk að loka vörninni.

Sama hverju var stillt upp

„Mér fannst alveg sama hverju við stilltum upp í sóknarleiknum, allt gekk upp en hinsvegar náðum við ekki að vinna okkur nógu vel í vörninni enda að takast á við nýtt varnarafbrigði sem tekur tíma að slípa saman,“ sagði Sandra. „Á milli komu þó góðar varnir sem skiluðu sér í hröðum upphlaupum.“

Mikið undir – spenna

Sandra sagðist ekki vera viss um af hverju gekk illa, jafnt í vörn sem sókn í fyrri hálfleik, alltént framan af. Hugsanlega hafi verið spenna í leikmönnum. „Þegar mikið er undir þá getur alltaf komið spenna í okkur. En mér fannst við ná að hrista það af okkur þegar á leið hálfleikinn og síðari hálfleikur var mikið betri af okkar hálfu,“ sagði Sandra sem lék sinn 15. A-landsleik.


Sandra sagði að þrátt fyrir góða stöðu íslenska landsliðsins fyrir síðari leikinn á morgun þá langi hana til þess að liðið leiki af fullum krafti á morgun.

Verðum að nýta vel leikinn á morgun

„Við fáum ekki svo marga leiki og verðum að nýta leikina eins vel og við getum. Framhaldið er að halda áfram að leika eins vel í sókninni og við gerðum lengst af í dag. Varnarleikurinn verður að vera betri því hann færir okkur fleiri hraðaupphlaup. Við megum kannski vera skipulagðari, ekki síst í seinna tempóinu í hraðaupphlaupum. Það kom fyrir í dag, ekki síst í fyrri hálfleik að við misstum boltann úr höndunum. Á heildina lítið verðum við að nýta leikinn eins vel og við getum á morgun,“ sagði Sandra Erlingsdóttir landsliðskona í samtali við handbolta.is á Ásvöllum eftir sigurleikinn á Ísrael, 34:26.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -