- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fæðingin var löng og erfið

Sigtyggur Daði Rúnarsson og félagar í ÍBV voru öflugir. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

„Fæðingin var löng og erfið, kannski full löng fyrir okkar smekk,“ sagði Sigtryggur Daði Rúnarsson, leikmaður ÍBV, eftir nauman sigur á nýliðum Víkings, 30:27, í fyrstu umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Víkinni í gærkvöld.


Víkingar veittu Eyjamönnum harða mótspyrnu og gáfu eftir síðustu tíu mínúturnar og þá tókst ÍBV-liðinu að sigla fram úr, ekki síst fyrir stórleik Rúnars Kárasonar. Hann skoraði níu mörk í tíu skotum í síðari hálfleik.


„Það er alltaf erfitt að mæta nýliðum í upphafi deildarkeppninnar. Þeir leggja allt í sölurnar í fyrsta leik, sýna sig og sanna. Við fengum að finna fyrir því. Víkingar voru hörkuflottir í leiknum og gerðu okkur mjög erfitt fyrir,“ sagði Sigtryggur Daði.


Varnarleikur ÍBV-liðsins var ekki viðunandi að mati Sigtryggs Daða. Einnig hafi sóknarleikurinn verið kaflaskiptur.

„Við sköpuðum okkur talsvert af færum í fyrri hálfleik en gekk illa að hitta rammann. Betur gekk í síðari hálfleik. Þá mjökuðum við okkur áfram. Síðustu tíu mínúturnar gerðum við mjög vel. Rúnar skoraði meirihluta marka okkar. Hann var frábær. Ég og aðrir verðum að fylgja honum eftir í næstu leikjum,“ sagði Sigtryggur Daði Rúnarsson um leið og hann gekk út af keppnisgólfinu í Víkinni í gærkvöld, þar sem móðir hans, Heiða Erlingsdóttir, gerði garðinn frægan með með kvennaliði Víkings á velmektarárum þess á tíunda áratug síðustu aldar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -