Á sama tíma og Færeyingar hefja framkvæmdir samkvæmt áætlun við byggingu þjóðarhallar fyrir innanhússíþróttir hefur verið áformum um byggingu þjóðarhallar verið seinkað hér á landi. Stundarfjórðungi fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor var undirrituð yfirlýsing um byggingu þjóðarhallar fyrir innanhússíþróttir í Laugardal. Átti hún að vera risin árið 2025.
Dropi í hafið
Eftir því sem fram kom í samtali við Sigurð Inga Jóhannsson formann Framsóknarflokksins og innviðaráðherra á Sprengisandi á sunnudaginn, og Kjarninn greinir frá, hefur verið dregið úr framkvæmdahraða til að spyrna gegn þenslu í samfélaginu. Ríkið leggur 100 milljónir til byggingu þjóðarhallar á næsta ári. Ljóst að er það er ekki nema dropi í hafið en nægir væntanlega til þess að halda lífi í framkvæmdanefnd sem skipuð var í sumar.
Grunnurinn klár fyrir árslok
Færeyingar slá hinsvegar ekkert af þótt efnhagslegur bati sé einnig talsverður þar í landi. Áætlanir við byggingu þjóðarhallar eru á áætlun eins og fram kemur í frétt á vef Kringvarpsins. Fyrsta skóflustunga verður tekin fljótlega og áætlað að lokið verði við að grafa fyrir grunninum fyrir árslok. Vonir standa til þess að Höllin, sem verður hin glæsilegasta, verði tilbúin á fyrri hluta ársins 2024.
handbolti.is nýtur ekki opinbers rekstrarstuðnings.