- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fagnar afléttingum – staða ungmenna er áfram áhyggjuefni

Stjarnan sækir KA/Þór heim í dag í Olísdeildinni. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Við fögnum því að hægt sé að fá undanþágu til æfinga hjá liðum í næst efstu deild og höfum þegar sótt um. Vonandi fæst hún í dag,” sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ við handbolta.is um þær til tilslakanir á sóttvarnarreglum sem heilbrigðisráðherra kynnti á þriðjudag og taka gildi í dag.

Liðin í Olísdeildum kvenna og karla mega hefja æfingar í dag eftir að hafa mátt sæta æfingabanni vikum og mánuðum saman. „Einnig er mjög ánægjulegt að opnað hafi verið fyrir æfingar hjá afrekshópum enda er það gríðarlega mikilvægt að þeir geti  loksins farið af stað. Þar með styttist sá tími sem líður þangað til við getum hafið keppni á nýjan leik í Olísdeildunum.

Hinsvegar höfum við sem fyrr þungar áhyggjur af stöðu ungmenna á aldrinum 16-19 ára. Þessi aldurhópur er skilinn eftir núna sem eru gríðarleg vonbrigði svo ekki sé fastara að orði kveðið. Það er hreint út sagt hræðilegt til þess að vita að þessi aldurflokkur megi ekki æfa neinar íþróttir og hafi ekki mátt um langt skeið. Því miður sér þessi aldurshópur ekki fram á það næsta mánuðinn ef ekki verður gerð breyting á reglugerðinni,” segir Róbert og undirstrikar mikilvægi þess að 16-19 ára fái að stunda æfingar þótt með einhverjum takmörkunum væri.

Spurður hvort hann sé farinn að sjá fyrir sér hvenær hægt verði að flauta til leiks á ný á Íslandsmótinu segist Róbert gæla við að það geti orðið strax og létt verði á sóttvörnum eftir 12. janúar. 

„Miðað við að núverandi reglugerð gildir til 12. janúar og að tilskyldu að allir gæti vel að sér í sóttvörnum næstu vikurnar þá getum við vonandi byrjað 13. eða 14. janúar með keppni í Grill 66-deildunum og Olísdeild kvenna. Olísdeild karla getur þá hugsanlega farið af stað 20. janúar,“ segir Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -