- Auglýsing -
Liðum Íslendinga gekk flestum hverjum ekki sem best í viðureignum dagsins í þýsku 1. deildinni í handknattleik í dag. Aðeins Heiðmar Felixson aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf gat fagnað sigri og það reyndar kærkomnum eftir brösótt gengi í fyrstu leikjum leiktíðarinnar. Hannover-Burgdorf vann Rhein-Neckar Löwen, 28:24, á heimavelli og náði þar með að lyfta sér aðeins upp úr 16. sæti af 18 liðum deildarinnar upp í 13. sæti.
- Haukur Þrastarson skoraði fimm mörk og átti sjö stoðsendingar fyrir lið Rhein-Neckar Löwen og verður ekki kennt um tapið. Jannik Kohlbacher var markahæstur með sex mörk.
Justus Fischer var atkvæðamestur hjá Hannover-Burgdorf með sex mörk. Vilhelm Poulsen, fyrrverandi leikmaður Fram, skoraði fimm mörk.
Blær markahæstur
- Blær Hinriksson var markahæstur hjá Leipzig með átta mörk í sjö marka tapi á heimavelli fyrir THW Kiel, 41:34. Kiel er þar með eitt í efsta sæti deildarinnar með 10 stig. Leipzig er í næst neðsta sæti með eitt stig.
Sex marka tap
- Arnar Freyr Arnarsson skoraði tvö mörk fyrir MT Melsungen í sex marka tapi fyrir Füchse Berlin, 30:24, í Max Schmeling-Halle í Berlin. Mathias Gidsel var markahæstur hjá Füchse Berlin með níu mörk í fyrsta deildarsigri liðsins eftir að þjálfaraskiptin umdeildu fyrir hálfri þriðju viku.
- Reynir Þór Stefánsson var ekki í leikmannhópi MT Melsungen í dag fremur en í fyrri viðureignum liðsins á leiktíðinni.
Reka áfram lestina
- Bergischer HC rekur áfram lestina í þýsku 1. deildinni án stiga eftir fimm leiki. Í dag tapaði liðið með 10 marka mun fyrir Flensburg, 43:33, á heimavelli. Arnór Þór Gunnarsson þjálfar Bergischer HC ásamt Markus Pütz.
Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Auglýsing -