- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fara brattar inn í skemmtilegasta tíma ársins

Handknattleikskonan þrautreynda, Sólveig Lára Kjærnested, hefur ákveðið að láta gott heita inni á handknattleiksvellinum eftir frábæran feril. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Það ríkir mikil eftirvænting í hópnum enda er þetta skemmtilegasti tími ársins. Við förum brattar inn í leikina en jafnframt meðvitaðar um að við verðum að eiga toppleiki til að eiga möguleika gegn gríðarlega sterku ÍBV-liði,“ segir Rakel Dögg Bragadóttir þjálfari Stjörnunnar sem er mætt með sína sveit til Vestmannaeyja þar sem ÍBV og Stjarnan mætast í dag í fyrsta leik fyrstu umferðar úrslitakeppni Olísdeildarinnar um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn.

Leikurinn hefst klukkan 13.30 í Vestmannaeyjum. Vinna þarf tvo leiki til þess að komast áfram í aðra umferð, undanúrslit, þar sem deildarmeistarar KA/Þórs og Fram bíða með óþreyju.

Stjarnan vann báðar viðureignir liðanna í Olísdeildini á keppnistímabilinu, 30:29 í Vestmannaeyjum og 28:26 í TM-höllinni í Garðabæ í næst síðustu umferð deildarinnar.

Rakel Dögg segir stöðuna á liði sína vera ágæta en þó eru tveir leikmenn frá vegna meiðsla. „Meiðsli eru að hrjá okkur eins og gengur og gerist. Hanna Guðrún [Stefánsdóttir] er meidd á kálfa og verður ekki með. Karen Tinna [Demian] er líka meidd og verður ekki með í þessu einvígi. Aðrar eru klárar og í góðu standi,“ segir Rakel Dögg ennfremur.

Við eigum mikið inni

„Mér líst vel á þessa leiki,“ segir Birna Berg Haraldsdóttir, leikmaður ÍBV, um viðureignirnar við Stjörnuna sem hún tekur ekki þátt í, alltént ekki dag vegna meiðsla á ökkla.

„Við töpuðum báðum leikjunum á móti Stjörnunni í deildinni en báðir voru illa spilaðir af okkar hálfu, að mínu mati. Við eigum mikið inni og vonandi springum við út í úrslitakeppninni,“ sagði Birna Berg ákveðin en hún mun styðja sitt lið af hliðarlínunni meðan hún jafnar sig af meiðslunum.

Sigurður Bragason, þjálfari, og leikmenn ÍBV. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Eftirvænting á Hlíðarenda

Hin viðureign fyrstu umferðar úrslitakeppninnar verður á milli Vals og Hauka, liðanna sem höfnuðu í þriðja og sjötta sæti Olísdeildar. Aðeins munaði fjórum stigum á þeim þegar upp var staðið enda tók Hauka-liðið miklum framförum eftir því sem leið á tímabilið sem lýsir sér m.a. í úrslitum innbyrðisleikja liðanna. Valur vann með átta marka mun þegar liðin mættust í Origohöllinni í fyrstu umferð, 31:23, í september. Jafntefli varð í síðari viðureigninni, 19:19, í Schenkerhöllinni í byrjun febrúar.

„Við berum mikla virðingu fyrir liði Hauka og mjög meðvituð um að við þurfum að leika vel til að komast áfram,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, við handbolta.is. Lið hans hefur tekið talsverðum breytingum á keppnistímabilinu þar sem leikmenn hafa helst úr lestinni af ýmsum ástæðum. Ágúst Þór fer af yfirvegun og reynslu inn í leikina við Hauka og veit sem er að í úrslitakeppninni getur brugðið til beggja vona.

Eftirvænting og spenna ríkir fyrir úrslitakeppni Olísdeildar kvenna. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Býr sig undir erfiða leiki

„Haukar hafa verið að spila vel í vetur og er virkilega vel skipulagt lið og um leið vel mannað. Við búum okkur undir erfiða leiki,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals.

Mikil vinna og skýrt markmið

„Það er mikil tilhlökkun í hópnum fyrir þessum leikjum. Stelpurna búnar að leggja hart að sér í vetur til að ná þessu markmiði að komast í úrslitakeppnina,“ segir Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka, við handbolta.is.

„Við vitum að þetta verður erfitt verkefni, þar sem Valur er með gríðarlega sterkt og reynslu mikið lið. Mætum vel undirbúin, meðvituð um að við þurfum að eiga mjög góðan leik til að eiga möguleika á sigri. Þurfum að halda einbeitingu og aga, ásamt því að gleyma ekki að njóta leiksins,“ segir Gunnars Gunnarsson, þjálfari Hauka.

Sem fyrr segir hefst viðureign ÍBV og Stjörnunnar klukkan 13.30 í Vestmannaeyjum og leikur Vals og Hauka klukkan 15 í Origohöll Valsara við Hlíðarenda. Stöð2Sport sýnir báða leiki í beinni útsendingu.

Næstu viðureignir liðanna verða á sunnudaginn í TM-höll Stjörnunnar og Schenkerhöll Hauka á Ásvöllum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -