Leikurinn um þriðja sæti á Evrópumótinu í handknattleik karla á morgun, á milli Svíþjóðar og Þýskalands, mun skipta meira máli en margar aðrar viðureignir um þriðja sæti á Evrópumóti í gegnum tíðina. Ástæðan er sú að sigurliði tryggir sér farseðil á Ólympíuleikana í París í sumar.
Evrópumeistarar eiga sæti á ÓL
Evrópumeistarar öðlast alla jafna þátttökurétt í handknattleikskeppni Ólympíuleika. Nú er hinsvegar staðan sú að Danir og Frakkar, sem leika til úrslita á EM á morgun, eru þegar öruggir um sæti í handknattleikskeppni á Ólympíuleikunum. Danir eru heimsmeistarar og Frakkar verða gestgjafar leikanna.
Af þessu leiðir að landsliðið sem hafnar í þriðja sæti tekur sæti Evrópumeistara í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í sumar. Svíþjóð og Þýskaland eru þegar örugg um sæti í forkeppninni í mars og víst að annað hvort þeirra sleppur við að taka þátt í forkeppninni.
Afríkukeppninni lýkur í dag
Leikið verður til úrslita í Afríkukeppninni í handknattleik karla í Kaíró í dag. Ef Egyptar vinna Alsírbúa í úrslitaleiknum þá fara eftirtaldar Evrópuþjóðar í forkeppni Ólympíuleikanna í mars:
Spánn – Noregur – Ungverjaland, Króatía, Slóvenía, Austurríki, Portúgal auk annað hvort Svíþjóðar eða Þýskalands. Til viðbótar bætast fjögur lið frá Afríku, Asíu og Suður Ameríku.
Ef Alsír vinnur Egyptaland fækkar um eitt Evrópuland í forkeppninni. Sennilega bitnar það á Slóveníu sem var næst á eftir Króötum á HM í fyrra.