„Við fáum alvöru generalprufu fyrir Evrópuleikinn okkar á laugardaginn,“ segir Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari karlaliðs Vals í samtali við handbolta.is um viðureign kvöldsins þegar bikarmeistarar og Evrópubikarmeistarar Vals sækja Íslandsmeistara FH heim í Kaplakrika í Meistarakeppni HSÍ. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.
Í viðtalinu fyrir ofan er farið vítt og breitt yfir stöðuna á Valsliðinu með Óskari Bjarna.
Nokkrar breytingar
Talsverðar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Vals frá því að síðustu leiktíð lauk. Þrautreyndir leikmenn eins og Alexander Örn Júlíusson og Vignir Stefánsson eru hættir auk annarra sem ýmist hafa farið í önnur lið eða hafa ákveðið að láta gott heita á handknattleikssviðinu. Tveir leikmenn Vals fóru utan í atvinnumennsku, Benedikt Gunnar Óskarsson til Kolstad í Noregi og Tjörvi Týr Gíslason til Bergischer HC í Þýskalandi.
Valur mætir króatíska liðinu RK Bjelin Spacva Vinkovci á heimavelli á laugardaginn í fyrri umferð forkeppni Evópudeildar karla í handknattleik. Leikurinn hefst klukkan 17.30. Síðari viðureignin verður í Króatíu laugardaginn 7. september. Sigurliðið tekur sæti í riðlakeppni Evrópudeildar sem hefst í október.
Nýir leikmenn
„Í staðinn höfum við fengið Færeyinginn Bjarna í Selvindi, línumanninn Miodrag Corsovic og Kristófer Mána Jónasson úr Haukum. Svo höfum við tekið yngri leikmenn inn á æfingar, strákar sem hafa verið í yngri landsliðum. Leyfa þeim aðeins að kynnast þessu. Útlitið er gott,” segir Óskar Bjarni.
Viðureign FH og Vals í Meistarakeppni HSÍ í karlaflokki hefst klukkan 19.30 í kvöld í Kaplakrika. Leikurinn verður sendur út á handboltapassanum. Einnig verður textalýsing á handbolti.is.
Vegna talsverðra breytinga á leikmannahópnum segir Óskar að undirbúningurinn hafi verið annar en í fyrra þegar færri breytingar voru gerðar á milli leiktíða. „Þegar við byrjuðum í fyrra þá voru fleiri leikmenn sem þekktu hlutverk sín frá árinu áður.”
Óskar Bjarni segir stöðuna hjá flestum liðum vera svipaða og ekki ólíka því sem hún er venjulega á þessum tíma, skömmu fyrir mót. „Þetta er eðlilegt. Þjálfararnir eru oft mjög stressaðir á þessum tíma árs,” segir Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals.
Lengra myndskeiðsviðtal er við Óskar Bjarna efst í þessari frétt.
Helstu breytingar:
Komnir: Bjarni í Selvindi, Kristófer Máni Jónasson, Miodrag Corsovic.
Farnir eða hættir: Alexander Örn Júlíusson, Aron Dagur Pálsson, Bergur Elí Rúnarsson, Benedikt Gunnar Óskarsson, Jóel Bernburg, Tómas Sigurðarson, Tjörvi Týr Gíslason, Vignir Stefánsson.
Karlar - helstu félagaskipti 2024.
Fleiri myndskeiðsviðtöl við þjálfara:
Kíktu bara á vegginn, þetta er allt mjög skýrt hér
Vissi vel að það væri áskorun falin í þessu starfi
Ætlum okkur klárlega að gera betur en í fyrra
Erum ekki á þeim stað sem við viljum vera á
Það er engan bilbug á okkur að finna