Kristján Örn Kristjánsson, Donni, landsliðsmaður í handknattleik og liðsmaður franska liðsins PAUC-Aix, varð illa fyrir barðinu á kórónuveirunni en hann smitaðist fyrir nærri mánuði. Donni er ekkert byrjaður að æfa á ný með liðsfélögum sínum en vonast til að í það styttist.
„Ég fékk gríðarleg eftirköst af veirunni,“ sagði Donni við handbolta.is í morgun.
„Súrefnismettunin greindist 92 til 93% og ég hef verið þreyttur alla daga af þeim sökum. Hins vegar er mér farið að líða miklu betur síðustu tvo daga og sem betur fer finnast engin einkenni í lungum og hjarta samkvæmt skanna. Þannig að mér ætti að vera óhætt að byrja að æfa á næstunni,“ sagði Donni sem misst hefur á bilinu fjögur til fimm kíló í veikindunum og víst er að talsverð vinna er framundan við að vinna það upp.
„Ég býst við að verða utan liðsins eitthvað lengur enda ætla ég ekki að stofna heilsu minni í frekari hættu en orðið er. Ég er sá úr liðinu sem hefur farið hvað verst út úr þessari veiru. Flestir samherjar mínir sem hafa smitast fundu varla fyrir veirunni. Helst var að þeir misstu lyktar og bragðskyn um tíma,“ sagði Donni í við handbolta.is í morgun.