Hannes Jón Jónsson hefur verið ráðinn þjálfari austurríska handknattleiksliðsins Alpla HC Hard. Hann tekur við þjálfun liðsins í sumar þegar hann lætur af störfum hjá Bietigheim í Þýskalandi.
Hannes Jón þekkir vel til í austurrískum handknattleik eftir að hafa verið þjálfari West Wien frá 2015 til 2019 með afbragðsárangri. Hjá West Wien hóf Hannes Jón þjálfaraferil sinn eftir að hafa verið atvinnumaður í handknattleik í Danmörku, Noregi og í Þýskalandi um árabil. Frá West Wien fór Hannes Jón til Bietigheim.
Alpla HC Hard er eitt af rótgrónari handknattleiksliðum Austurríkis. Það hafnaði í þriðja sæti efstu deildar þar í landi en keppni lauk um síðustu helgi. Úrslitakeppnin er framundan.
Alpla HC Hard hefur sex sinnum orðið austurrískur meistari, síðast 2017, og fjórum sinnum bikarmeistari, síðast 2018.