Roland Eradze gerir sér góðar vonir um að vera laus við kórónuveiruna eftir að hafa verið lokaður af í nærri hálfan mánuð. „Ég fer í skimun á fimmtudaginn,“ sagði Roland í skilaboðum til handbolta.is í gær en hann og allir leikmenn úkraínska meistaraliðsins Motor Zaporozhye veiktust af kórónuveirunni fyrir um hálfum mánuði eins og áður hefur komið fram á handbolti.is.
Gintaras Savukynas, þjálfari Motor, og íþróttmaður Aftureldingar, fer í próf í dag og komi það neikvætt út verður hann laus úr eingangrun að sögn Rolands sem hefur sem betur fer ekki orðið alvarlega veikur en þó fundið til slappleika sem virðist jafnt og þétt vera að rjátlast af honum.
Leik Motor og Kiel í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku var frestað og sömu sögu er að segja um viðureign liðsins við Nantes í þessari viku í sömu keppni. Veiran hefur einnig skotið sér niður í herbúðum Nantes þar sem a.m.k. fjórir leikmenn hafa eða eru í einangrun.
Veikindin innan Motor-liðsins hafa ekki aðeins haft áhrif á þátttöku liðsins í Meistaradeild Evrópu. Tveimur leikjum liðsins í úkraínusku deildinni hefur verið slegið á frest og einni viðureign í Austur-Evrópudeildinni, Seha-league.
„Við verðum að fara rólega af stað við æfingar þegar þetta verður yfirstaðið hjá öllum,“ sagði Roland sem sagði óvíst hvenær Motor-liðið geti byrjað æfingar á ný. Það færi allt eftir niðurstöðum úr þeim prófum sem leikmenn gangast undir næstu daga. Eins getur liðið tími þar til liðið leikur næst kappleik.