- Auglýsing -

Fer til Minsk þrátt fyrir höfuðhögg – myndskeið

Bjarni Ófeigur Valdimarsson leikmaður Skövde t.v. Mynd/Aðsend

Bjarni Ófeigur Valdimarsson leikmaður sænska liðsins IFK Skövde fékk þungt höfuðhögg í leik Skövde og SKA Minsk í sextán liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik í Skövde um síðustu helgi. Engu að síður fór hann með samherjum sínum til Hvíta-Rússlands þar sem þeir leika á sunnudaginn.


„Það hefur verið fylgst með mér alla vikuna og ég hef brugðist vel við öllum prófum sem ég hef farið í,“ sagði Bjarni Ófeigur við handbolta.is í morgun. Hann sagði alls óvíst hvort hann taki þátt í leiknum í Minsk á sunnudaginn. Læknir er með Skövde-liðinu í för til Minsk. Hann metur stöðuna en ljóst er að enginn áhugi er hjá nokkrum að taka einhverja áhættu þegar höfuðhögg eru annarsvegar. Hins vegar mælir ekkert á móti því að ferðast.


„Ég tek enga sénsa með hausinn á mér ef mér finnst eitthvað er að á sunnudaginn,“ sagði Bjarni Ófeigur sem leikið hefur afar vel með IFK SKövde á leiktíðinni en liðið er í öðru sæti sænsku úrvalsdeildarinnar. Einnig var hann kallaður inn í landsliðshópinn á EM.


Lokað er fyrir beint flug frá Evrópuríkjum til Hvíta-Rússlands. Þess vegna fljúga Bjarni Ófeigur og félagar frá Arlanda við Stokkhólm til Vilniuis í Litáen. Þaðan verður ferðast með rútu til Minsk, höfuðborgar Hvíta-Rússlands. Reiknað er með að rútuferðin taki allt að fimm stundir.


Jafntefli varð í fyrri viðureign IFK Skövde og SKA Minsk í Skövde um síðustu helgi, 26:26.

Myndskeið af byltunni og höfuðhögginu sem Bjarni Ófeigur fékk í fyrri leiknum við SKA Minsk má sjá hér fyrir neðan. Bjarni Ófeigur sendi handbolta.is upptökuna og eins og sjá má var um afar þungt högg að ræða.


Þess má geta að SKA Minsk sló út FH í 32-liða úrslitum keppninnar í haust. SKA Minsk er annað besta handknattleikslið Hvíta-Rússlands um þessar mundir á eftir Meshkov Brest.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -