- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ferðasaga: „Þú ert frá lyfjaeftirlitinu!“

Íþróttamiðstöðin í Vestmannaeyjumá miðvikudagskvöld. Mynd/Magnús
- Auglýsing -
  • Íslandsmótinu í handknattleik lauk á miðvikudagskvöld með veisluhöldum í Vestmannaeyjum sem óvíst er að sjái fyrir endann á enda tekur við sjómannadagshelgin. Eyjamenn eru ekki þekktir fyrir að hætta leik þá hæst hann stendur. Vertíðarfólk.
  • Sannarlega var gaman að vera viðstaddur úrslitaleikinn í Eyjum. Umgjörðin eins og best verður á kosið miðað við þær aðstæður sem fyrir hendi eru. Stuðningsmenn beggja liða stórskemmtilegir. Eyjamenn sjálfum sér líkir, jafnt til orðs sem æðis. Góðir heim að sækja en hrútleiðinlegir andstæðingar.
  • Þótt að í miðri viku væri þá fjölmennti Haukafólk til Eyja. Félaginu til sóma. Að minnsta kosti einn var áður en lagt var stað með áhyggjur af því hvort hann fengi sæti við völlinn eða ekki. Reyndar sömu áhyggjurnar og síðast þegar tíðindamaður rakst á hann. Það stóð til að skrifa bréf vegna þessa. Kvarta við bæjarstjórann í Eyjum. Það hafði ekki komist í verk. Úrslit leiksins og vonin um að vinna Íslandsmeistaratitilinn virtist vera aukaatriði hjá sætamálinu. Það lá þungt á okkar manni.
  • Flestir aðrir voru komnir til að njóta staðar og stundar með von um að fara með vinningspottinn heim.
  • Fyrir utan bikarafhendinguna eftir leikinn þá var hápunktur kvöldsins án vafa þegar Eyjamenn sameinuðust í að syngja þjóðhátíðarlagið 2012, „Þar sem hjartað slær.“ Stund sem jafnvel snerti örlítið tilfinningastreng jálks úr Mosfellsbæ.
  • Allstaðar eru sömu hrópin, trommuslátturinn og konfettisprengingarnar í fullskipuðum íþróttahúsum. Allt rennur saman í eitt þegar farið hefur verið úr einu íþróttahúsinu í annað á þeim vikum sem úrslitakeppnin stendur yfir. Sami grautur úr sömu skál. Nema í Vestmannaeyjum. Þar er andstæðingurinn rækilega minntur á að hann er ekki aðeins að kljást við andstæðing inn á vellinum.
  • Ég saknaði að heyra ekki Eyjalög leikin í hljóðkerfi hússins síðustu klukkustundina fyrir leikinn til að undirstrika fyrir andstæðingnum hvert hann væri kominn ef hann hafi ekki þegar verið búinn að átta sig á því þegar í ljós kom að engin voru sætin fyrir hann í keppnishöllinni.
  • Ég viðurkenni að vera gamaldags. Það er e.t.v. ekki í móð að „Fjórtán lög frá Þjóðhátíð Vestmannaeyja“ með sextett Ólafs Gauks hljómi í hljóðkerfi íþróttahúss á síðustu mínútum fyrir úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn.
  • Kappleikurinn fór eins og heimamenn óskuðu sér. Ólíkt betur en nokkrum dögum áður. Kampavínið var bara aðeins kaldara.
  • Heimferðin gekk vel. Misglaðir Haukar smekkfylltu tíuferðina frá Vestmannaeyjahöfn sem fór reyndar ekki af stað fyrr en korter yfir. Einn farþeganna fræddi mig á miðri leið um að ölduhæð væri fimm metrar. Víst er að smiðsauga hans var orðið vanstillt af veitingum dagsins.
  • Sumir voru örlítið þvoglumæltir enda langur dagur að baki. Fyrir þá var gott að eiga víst rútufar úr Landeyjum heim í hýra Hafnarfjörð “sem horfir móti sól, þó hraun þín séu hrjóstrug er hvergi betra skjól.“ Þokan var þétt beggja vegna Þjórsár.
  • Hvar tíðindamaður sat umkomulaus nærri veitingasölu Herjólfs skömmu fyrir komu til Landeyjarhafnar vatt sér að honum sætkenndur og maskaralegur Hafnfirðingur sem beið eftir afgreiðslu á kartöflum og sagði upp úr þurru:
  • „Þú ert frá lyfjaeftirlitinu!“
  • „Lyfjaeftirlitinu?,“ svaraði ég og vonaðist til að vera eitt spurningamerki í framan um leið og ég herti takið á tösku sem ég var með í fanginu hvar glögglega kom fram að ég er bæði sigldur og forframaðar eftir að hafa setið þing Norrænna íþróttafréttamanna í Kaupmannahöfn 2001.
  • „Já, ég vissi það,“ sagði maskaralegi Hafnfirðingurinn og bætti við. „Þú ert svo hallærislegur til fara. Það gengur ekki nokkur maður svona til fara nema að hann sé frá lyfjaeftirlitinu.“
  • „Já, ég er frá lyfjaeftirlitinu,“ svaraði ég og sá þann kost vænstan að leggja niður skottið en reyndi um leið að bera mig mannalega.
  • Um leið og ég sleppti orðinu blikkaði rautt ljós á svörtu plastspjaldi maskaralega Hafnfirðingsins sem snerist á hæli. Enginn alvöru Hafnfirðingur sem alinn er upp á KFC lætur snarkheitar franskar kartöflur fara í súginn. Hvað þá til sjós þar sem jafnvel franskar kartöflur bragðast betur en í landi.
  • Um leið og ég sá í bakið á maskaralega Hafnfirðingnum með kartöflurnar rifjaðist upp fyrir mér atvik sem átti sér stað fyrir um áratug þegar einn þáverandi forsvarsmanna HSÍ tók bláedrú en blaðskellandi á móti mér á blaðamannfundi. Þótti ég sennilega eins og stundum áður þurrlegur á svip og ætlaði maðurinn strax að létta á stemningunni, taka mig með trompi: „Blessaður, Ívar. Ertu ekki ennþá að vinna á FM957?“
  • Þá eins og um borð í Herjólfi á miðvikudagskvöld vafðist mér tunga um tönn enda löngum verið seinn til svars.
  • Tímarnir breytast og mennirnir með.
  • Góða helgi.
  • Ívar Benediktsson – [email protected].
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -