„Við erum bara ferskir eftir morgunmat og nokkra kaffibolla,“ segir Sigvaldi Björn Guðjónsson landsliðsmaður í handknattleik þegar handbolti.is hitti hann að máli á hóteli landsliðsins í Zagreb í hádeginu í dag, hálfum sólarhring eftir að fyrsta leik íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu lauk með sigri á landsliði Grænhöfðaeyja, 34:21, í Zagreb Arena.
Næsti leikur íslenska landsliðsins verður gegn Kúbu á morgun, laugardag, klukkan 19.30.
„Næstu klukkutímar verða rólegir og síðan förum við á lyftingaæfingu þegar líður á daginn,“ segir Sigvaldi sem var nokkuð sáttur við sigurleikinn í gær ef undan er skilinn stuttur kafli í síðari hálfleik þegar hver mistökin ráku önnur og leikmenn Grænhöfðaeyja skoruðu fimm mörk í röð.
„Mér fannst þetta heilt yfir nokkuð gott hjá okkur. Það er mjög erfitt að halda fullri einbeitingu í svona leik í sextíu mínútur,“ segir Sigvaldi Björn.
Sigvaldi Björn segir að á morgun verði allir að vera á fullu gasi frá upphafi til enda. „Við skoðum Kúbumennina betur þegar fer á líða á daginn.“
Lengra myndskeiðsviðtal er við Sigvalda Björn ofar í þessari grein.