- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Feta Andrea og Díana í fótspor Rutar og Þóreyjar?

Andrea Jacobsen og Díana Dögg Magnúsdóttir, landsliðskonur og leikmenn Blomberg-Lippe. Ljósmynd/Weib‘z Fotografie
- Auglýsing -


Landsliðskonurnar Andrea Jacobsen og Díana Dögg Magnúsdóttir leika í dag til undanúrslita í Evrópudeildinni í handknattleik með þýska liðinu Blomberg-Lippe. Andstæðingur Blomberg-Lippe í undanúrslitum í Sportpark í Graz í Austurríki verður danska úrvalsdeildarliðið Ikast Håndbold. Sigurliðið mætir þýska liðinu Thüringer eða JDA Bourgogne Dijon Handball frá Frakklandi í úrslitaleik á morgun.

Takist Blomberg-Lippe að vinna Evrópudeildina feta Andrea og Díana Dögg í fótspor Rutar Arnfjörð Jónsdóttur og Þóreyjar Rósu Stefánsdóttur sem voru í sigurliði danska liðsins Holstebro sem vann keppnina fyrir 12 árum. Reyndar var annað form á keppninni á þeim tíma. Þórey og Rut eru einu íslensku handknattleikskonurnar sem hafa unnið eitt af Evrópumótum félagsliða.

Úrslitahelgi Evrópudeildarinnar fer fram í Sportpark í Graz í Austurríki eins og undanfarin ár.

HSG Blomberg-Lippe, sem Elín Rósa Magnúsdóttir leikur með á næsta tímabili, hefur átt ævintýralegt tímabil í Evópudeildinni. Liðið fór í gegnum forkeppnina í haust og vann sinn riðil í 16-liða úrslitum. Í átta liða úrslitum vann þýska liðið spænsku meistarana Super Amara Bera Bera í tveimur hörkuleikjum.
Réðist í vítakeppni hvort liðið kæmist áfram í undanúrslit.
Blomberg-Lippe hefur ekki leikið í undanúrslitum Evrópukeppni félagsliða í 16 ár.

Andstæðingur Blomberg-Lippe, Ikast Håndbold, vann Evrópudeildina fyrir tveimur árum.

Norska liðið Storhamar stóð uppi sem sigurvegari Evrópudeildarinnar á síðasta ári.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -