Karlalið FH í handknattleik saknar enn tveggja öflugra leikmanna sem ekki hafa leikið með liðinu það sem af er leiktíðar. Annarsvegar er um að ræða hornamanninn sterka Arnar Freyr Ársælsson og hins vegar varnarjaxlinn og skyttuna Ísak Rafnsson. Báðir hafa þeir leikið um árabil með FH og verið í stórum hlutverkum. Ekki er útlit fyrir að þeir verði með í allra næstu leikjum FH-liðsins, a.m.k. ekki Ísak sem fór í speglun á öxl í lok ágúst.
„Ég er að glíma við meiðsli í rist og hef gert síðan í sumar en er á góðum batavegi,“ sagði Arnar Freyr þegar handbolti.is leitaði fregna af honum. „Ég verð ekki með í næstu leikjum en það er þó vonandi ekkert mjög langt í það,“ sagði Arnar Freyr sem hefur á undanförnum árum verið einn markahæsti leikmaður FH-liðsins.
„Ég fór í speglun á öxl í lok ágúst. Þar af leiðandi er ennþá eitthvað í að ég fari að spila en skórnir eru ekki farnir upp á hillu, langt í frá,“ sagði Ísak við handbolta.is í gærkvöld.