Ef leikmaður á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla greinist smitaður af covid verður hann að bíta í það súra epli að vera fjarri góðu gamni í að minnsta kosti fimm daga og sýna fram á neikvæða niðurstöðu covidprófi til að losna úr prísundinni. Enginn afsláttur verður gefinn, eftir því sem danskir og sænskir fjölmiðlar segja frá. Stjórnendur Alþjóða handknattleikssambandsins líta covid enn alvarlegum augum og vilja að reglulegt eftirlit verði haft með leikmönnum, þjálfurum og starfsmönnum liðanna meðan á mótinu stendur.
Ljóst er að reglurnar vegna covid verða strangari á mótinu en almennt er í Svíþjóð og Póllandi um þessar mundir þar sem það fer fram. Í báðum löndum hafa allar takmarkanir verið felldar úr gildi fyrir lifandi löngu eins og hér á landi.
Engin miskunn
Leikmenn og þjálfarar verða að gangast undir covid próf áður en flautað verður til leiks. Eftir að riðlakeppninni lýkur verða engin gríð gefin á covidprófum. Allir verða að fara í covid próf áður en milliriðlakeppnin og baráttan um forsetabikarinn hefst. Áður en átta liða úrslitin hefjast verður prófað að nýjan leik.
Takmörk á samgangi
Einnig er mælst til þess að sem minnstur samgangur verður á milli leikmanna og áhorfenda eftir leiki. Engar reglur gilda að öðru leyti um áhorfendur.
Upp með grímurnar!
Fjölmiðlamenn verða að bera grímur fyrir vitum sér þegar þeir tala við leikmenn og þjálfara liðanna í tengslum við leiki og æfingar. Einnig skal gæta að fjarðlægðamörkum.
Bólusetningar
Eins og handbolti.is sagði frá í nóvember þá verða leikmenn, þjálfarar og starfsmenn liðanna að vera þríbólusettir fyrir covid nema þeir sem hafa innan síðustu 270 daga þegið aðra bólusetningu. Hafi lengri tími en 270 dagar liðið frá annarri bólusetningu og sú þriðja ekki verið þegin eftir það verða leikmenn að vera bólusettir þriðja sinni innan tiltekins tíma áður en þeir taka þátt í HM.
Allir samþykktir
Allir þeir sem verða í íslenska keppnishópnum á HM uppfylla þær kröfur sem gerðar eru af hálfu Alþjóða handknattleikssambandsins, eftir því sem næst verður komist.
Lausari tök á EM
TV2 í Danmörku segir að aðrar reglur hafi gilt á EM kvenna í nóvember. Aðeins hafi verið krafist covidprófs af keppendum áður en mótið hófst. Síðan hafi verið gerð hraðpróf eftir þörfum ef grunur vaknaði um smit eða veikindi.