Íslendingaliðið Kolstad varð í dag norskur bikarmeistari þriðja árið í röð með dramatískum sigri á Elverum, 28:27, í Unity Arena í Bærum. Kolstad skoraði þrjú síðustu mörk leiksins á síðustu fimm mínútunum. Sigurmarkið skoraði Sander Sagosen 18 sekúndum fyrir leikslok. Sigvaldi Björn Guðjónsson hafði áður jafnað metin, 27:27, tveimur og hálfri mínútu áður en leiknum lauk. Sagosen hafði þá unnið boltann í vörninni.
Sigvaldi Björn var markahæstur hjá Kolstad með sjö mörk. Arnór Snær Óskarsson skoraði tvö mörk og Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði einu sinni. Sveinn Jóhannsson skoraði ekki í leiknum. Sigvaldi Björn átti tvær stoðsendingar og Benedikt Gunnar eina. Sagosen skoraði þrjú mörk en gaf sjö stoðsendingar.
Kolstad var fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 19:14. Elverum færðu stig hressilega upp á skaftið í síðari hálfleik. Liðið komst fyrst yfir, 26:25, eftir að hafa skorað þrjú mörk í röð.
Axel bikarmeistari
Axel Stefánsson er mættur á ný í þjálfarateymi Storhamar. Það var eins og við manninn mælt, Storhamar vann Tertnes, 27:26, í úrslitum bikarkeppninnar í kvennaflokki. Jafnt var að loknum venjulegum leiktíma, 22:22. Þá var gripið til vítakeppni og í henni hafði Storhamar betur, 5:4.
Úrslitaleikurinn í kvennaflokki fór fram á undan úrslitaleiknum í karlaflokki.
Úrslitaleikirnir voru háðir í Unity Arena í Bærum þar sem undanúrslita- og úrslitaleikir HM karla fara fram í lok janúar og í byrjun febrúar.