- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fimm þúsund Færeyingar velgdu Slóvenum undir uggum

Færeyska landsliðið komst loksins í lofið á milli hálf þrjú og þrjú í dag. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Talið er að hátt í 5.000 Færeyingar hafi verið í Mercedes Benz Arena í Berlín í kvöld þegar landslið þeirra lék í fyrsta sinn í lokakeppni Evrópumóts í handknattleik karla. Eftir hörkuleik máttu Færeyingar játa sig sigraða í leik við Slóveníu 32:29. Jafnt var að loknum fyrri hálfleik, 13:13. Alls voru ríflega 11 þúsund áhorfendur á leiknum og víst er að Færeyingar hefðu unnið stuðningsmannaverðlaunin ef þau hefðu verið í boði.

Færeyska landsliðið var að leika sinn allra stærsta leik til þessa og stóð sig frábærlega. Því tókst svo sannarlega að velgja þrautreyndum leikmönnum slóvenska landsliðsins hressilega undir uggum. Slóvenum tókst að komast framúr þegar komið var fram í síðari hálfleik, 24:21, þegar hálfleikurinn var hálfnaður. Þá komu fimm slæmar mínútur hjá færeyska liðinu og Slóvenar komust sex mörkum yfir, 29:23. Færeyingar svöruðu með fjórum mörkum í röð, 29:27. Nær komst þeir ekki en Slóvenar mega teljast góðir að hafa fengið bæði stigin.

„Við áttum möguleika á að vinna leikinn og erum vonsviknir yfir að það tókst ekki,“ sagði Teis Horn Rasmussen leikmaður færeyska landsliðsins í samtali við sjónvarpið í Færeyjum.

Mörk Færeyinga: Elias Ellefsen á Skipagøtu 9, Hákun West av Teigum 9, Teis Horn Rasmussen 3, Tróndur Mikkelsen 2, Vilhelm Poulsen 2, Óli Mittún 2, Rói Berg Hansen 1, Leivur Mortensen 1.
Varin skot: Pauli Hacobsen 9, 28% – Nicolas Satchwell 1, 12,5%.

Aleks Vlah skoraði átta fyrir slóvenska landsliðið og Miha Zarabec var næstur með sjö mörk.

Næsti leikur Færeyinga verður við Norðmenn á laugardaginn. Norðmenn leik við Pólverja í kvöld í hinni viðureign dagsins í D-riðli.

Georgíumenn og Grikkir í fyrsta leik

Georgíumenn voru einnig að leika í fyrsta skipti í lokakeppni Evrópumóts í handknattleik karla. Þeir stóðu sig einnig vel þótt þeir töpuðu fyrir Hollendingum, 34:29, í E-riðli. Hollendingar voru yfir frá upphafi til enda. Í sama riðli leika einnig Svíar og Bosníumenn.

Portúgalar lögðu Grikki á sannfærandi hátt í fyrsta leik gríska landsliðsins í lokakeppni EM, 31:24, í fyrri leik kvöldsins í F-riðli. Danir og Tékkar mætast klukkan 19.30 í síðari viðureinginni.

EM 2024 – leikjadagskrá riðlakeppni

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -