Grótta komst í kvöld upp að hlið ungmennaliðs Fram í efsta sæti Grill 66-deildar með fimm marka sigri á Víkingi, 21:16, í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi. Grótta hefur þar með 12 stig að loknum átta leikjum en Fram er með sama stigafjölda en hefur lokið sjö viðureignum.
Jafnt var á með liðunum allan fyrri hálfleikinn og sjaldan munaði meira en einu marki á annan hvorn veginn. Víkingur fékk þrjú tækifæri til þess að ná tveggja marka forystu þegar halla tók á fyrri hálfleik í stöðunni 11:10. Þegar flautað var til hálfleiks var jafnt á komið, 13:13.
Gróttu-liðið náði upp sterkum varnarleik í síðari hálfleik sem sló leikmenn Víkinga út af laginu. Um leið kom markvarslan með hjá liði Seltirninga.
Jafnt og þétt jók Grótta muninn á Víkinga sem þó einnig spiluðu góða vörn í seinni hálfleik. Grótta fékk aðeins þrjú mörk á sig í seinni hálfleik en tókst að skora átta og vinna með fimm marka mun, 21:16.
Mörk Gróttu: Tinna Valgerður Gísladóttir 10, Valgerður Helga Ísaksdóttir 3, Helga Guðrún Sigurðardóttir 3, Katrín Helga Sigurbergsdóttir 3, Katrín Anna Ásmundsdóttir 1, Hrafhildur Hekla Grímsdóttir 1.
Mörk Víkings: Auður Brynja Sölvadóttir 5, Sigurlaug Jónsdóttir 3, Anna Þyrí Ólafsdóttir 3, Helga Lúðvíka Hallgrímsdóttir 2, Alana Elín Steinarsdóttir 1, Katrín Guðmundsdóttir 1, Kara Rún Árnadóttir 1.