„Ég held að við getum verið ánægð með fyrirkomulagið á úrslitakeppninni. Vissulega var það neyðarúrræði að fara þessa leið, það er að leika tvo leiki í öllum umferðum. Ég held að við höfum ekki annan betri kost vegna þess hversu langt er komið fram á árið,“ sagði Einar Andri Einarsson, handknattleiksþjálfari, spurður um hver honum þykir vera reynslan af fyrirkomulagi úrslitakeppni Olísdeildar karla.
„Mér finnst þetta hafa heppnast fullkomlega. Vissulega væri gaman að vera í hefðbundnu fyrirkomulagi en nú erum við komin fram yfir miðjan júní með keppnistímabil sem hófst í byrjun september. Einhverntímann þarf að ljúka mótinu.
Öll einvígin að einu undanskildu hafa boðið upp á spennu auk þess sem óvænt úrslit hafa átt sér stað. Spennan hefur líka verið fyrir hendi í flestum leikjum. Þótt vel hafi tekist til þá vil ég að horfið verði til fyrra fyrirkomulags þegar að því kemur, væntanlega á næsta ári,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari U21 árs landsliðsins og þjálfari yngri flokka hjá FH í samtali við handbolta.is.