- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fjögur íslensk lið af 32 – dregið á þriðjudaginn

Kátir leikmenn Aftureldingar ásamt hluta stuðningsmanna eftir sigurinn á Nærbø í síðasta mánuði. Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Fjögur íslensk félagslið verða á meðal þeirra 32 sem dregið verður um í 3. umferð Evrópubikarkeppninnar í handknattleik karla á þriðjudagsmorgun í höfuðstöðvum Handknattleikssambands Evrópu, EHF, í Vínarborg. Afturelding og FH bættust í hópinn í gær en Valur og ÍBV höfðu tryggt sér sæti með sigrum í tveggja leikja rimmum á útivelli fyrir viku.

Deildin er að styrkjast

„Árangurinn undirstrikar að deildin okkar er alltaf að styrkjast og að í henni eru góð lið,“ sagði Sigursteinn Arndal þjálfari FH um þessa staðreynd en FH og Valur hafa farið í gegnum tvær umferðir í keppninni en Afturelding og ÍBV komu inn í keppnina fyrir aðra umferðina sem lýkur í dag.

Fimm síðustu leikir 2. umferðar Evrópubikarkeppninnar verða háðir í dag. Í kvöld liggur fyrir hvaða 32 lið verða eftir.

Reikna má með að EHF gefi út styrkleikaflokkana tvo á morgun. Úr þeim verður dregið á þriðjudagsmorgun. Sextán lið verða í hvorum flokki.

Leikir 3. umferðar eiga að fara fram 25. og 26. nóvember og 2. og 3. desember.

Handbolti.is birtir styrkleikaflokkana þegar þeir liggja fyrir og mun að sjálfsögðu fylgjast grannt með þegar dregið verður í 32-liða úrslit á þriðjudagsmorgun.

Til viðbótar er kvennalið ÍBV komið í 32-liða úrslit Evrópubikarkeppninnar í kvennaflokki. ÍBV mætir Madeira Andebol SAD í tvígang á Madeira 11. og 12. nóvember.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -