Fjögur lið eru efst í milliriðli tvö á Evrópumótinu í handknattleik karla að loknum tveimur leikdögum af fjórum. Króatar, undir stjórn Dags Sigurðssonar, slökktu að mestu vonir leikmanna Sviss í gærkvöld með fjögurra marka sigri, 28:24, í síðasta leik umferðarinnar í Malmö Arena.
Ísland, Svíþjóð, Slóvenía og Króatía hafa fjögur stig hvert. Ísland stendur um þessar mundir best að vígi með átta mörk í plús, Svíar eru með fjögur mörk í plús, Slóvenar tvö mörk en markatala Króata er neikvæð um þrjú mörk. Tvö efstu liðin leika til undanúrslita og liðið í þriðja sæti keppir um 5. sætið sem gefur farseðil á HM á næsta ári en sjötta sætið ekki.
Ungverjaland og Sviss hafa eitt stig hvort og þótt e.t.v. eigi hvort land einhverja stærðfræðilega möguleika á að komast áfram í undanúrslit eða að leika um 5. sætið á EM (þriðja sæti í riðli) verður að telja það fjarlægan möguleika.
Hverjir eru möguleikar Íslands?
Eftir sigurinn í Svíþjóð í gær stendur íslenska landsliðið vel að vígi í riðlinum og margir eflaust farnir að sjá sæti í undanúrslitum EM í hillingum. Einfaldasta svarið við spurningunni hvað íslenska landsliðið þurfi að gera til þess að komast í undanúrslit er einfaldlega það; best er að vinna tvo síðustu leikina, gegn Sviss á morgun þriðjudag og Slóveníu á miðvikudaginn.
Aðrar vangaveltur um ef þetta og ef hitt verða a.m.k. látnar liggja á milli hluta fram yfir viðureignina við Sviss sem hefst klukkan 14.30 á morgun.
Leikir tveggja síðustu umferða í milliriðli 2:
27. janúar: Sviss – Ísland, kl. 14.30.
27. janúar: Slóvenía – Króatía, kl. 17.
27. janúar: Svíþjóð – Ungverjaland, kl. 19.30.
28. janúar: Slóvenía – Ísland, kl. 14.30.
28. janúar: Króatía – Ungverjaland, kl. 17.
28. janúar: Sviss – Svíþjóð, kl. 19.30.
Staðan:



