- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fjögur lið hafa fullt hús stiga – Reistad með 25 mörk í tveimur leikjum

Hart tekist á í leik FTC-og RK Podravka í Búdapest um helgina. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Fjögur lið hafa fullt hús stiga eftir aðra umferð Meistradeildar kvenna í handknattleik sem fram fór um helgina. FTC frá Ungverjalandi og slóvensku meistararnir Krim hafa fjögur stig í A-riðli. Reyndar er Metz einnig taplaust í riðlinum eftir sigur og jafntefli.

Í B-riðli er franska liðið Brest með fjögur stig eins og sigurlið Meistaradeildarinnar í vor, Györ frá Ungverjalandi.

Reistad og Mørk

Henny Reistad skoraði 10 mörk fyrir Esbjerg í níu marka sigri dönsku meistaranna á Odense Håndbold í uppgjöri dönsku liðanna í keppnishöllinni í Esbjerg, 39:30. Michala Møller fór einnig mikinn og skoraði níu mörk Esbjerg. Reistad hefur þar með skorað 25 mörk í tveimur fyrstu leikjunum og undirstrikar styrk sinn.

Í leiknum skoraði landa Reistad, Nora Mørk, sitt 900. mark í Meistaradeildinni og skipaði sér í hóp örfárra kvenna sem hafa náð þeim áfanga á ferlinum.

Króatíska meistaraliðið HC Podravka Vegeta er með í keppninni eftir árs hlé. Liðið virðist eiga jafn erfitt uppdráttar og síðast þegar liðið var með og vann vart leik. Þriðja danska liðið í keppninni, Nykøbing Falster, virðist einnig vanta eitthvað upp á að geta staðið mörgum liðum keppninnar á sporði.

Evrópumeistarar Györ hafa unnið tvo fyrstu leiki sína í Meistaradeildinni. Ljósmynd/EPA

Þýska meistaraliðið Ludwigsburg, áður Bietigheim, sem lék til úrslita í Meistaradeildinni í vor er án stiga eftir tvær fyrstu umferðirnar í B-riðli. Um helgina tapaði Ludwigsburg fyrir Györ, 31:26, í Þýskalandi tveimur og hálfum mánuði eftir að liðin mættust í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Hatadou Sako markvörður Györ og franska landsliðsins átti stórleik, varði 18 skot, 41%.

Svartfellska meistaraliðið Buducnost er ekki svipur hjá sjón eftir að hafa farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagninu í sumar og eftir standa lítt reyndir leikmenn.

A-riðill:
FTC – HC Podravka Vegeta 33:24 (17:12).
Metz – CS Gloria 2018 BN 28:26 (15:14).
Krim Ljubljana – Nykøbing Falster 35:25 (18:10).
CSM Bucuresti – Storhamar Håndball 32:28 (17:15).

Standings provided by Sofascore

B-riðill:
Buducnost – Brest Bretagne 22:35 (10:16).
HB Ludwigsburg – Györi Audi ETO KC 26:31 (16:18).
Esbjerg – Odense Håndbold 39:30 (22:14).
Vipers Kristiansand – Rapid Bucuresti 30:30 (16:16).

Standings provided by Sofascore
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -