- Auglýsing -

Fjölgað úr 16 liðum í 24 á EM yngri landsliða 2024 og 2025

Mynd/EHF

Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur staðfest að þátttökuþjóðum á Evrópumótum yngri landsliða verður fjölgað úr 16 í 24 til samræmis við mót fullorðinna. Í karlaflokki tekur breytingin gildi hjá U18 og U20 ára landsliðum karla frá og með árinu 2024 en ári síðar hjá U17 og U19 ára landsliðum kvenna.

Evrópumót U17 og U19 ára landsliða kvenna sem fram fara á næsta sumri verða þar með síðustu 16 liða Evrópumót A-liða.


Framkvæmdastjórn lagði til þessar breytingar í vor en þær voru útfærðar á fundum sem fram fóru fyrir nýliðna helgi. Á fundunum var einnig ákveðin útfærsla á fjölgun þátttökuliðanna.

Ísland stendur vel að vígi

Varðandi U18 ára landslið karla þá munu átta bestu liðin á EM 2018, 2020 og 2022 vinna sér inn þátttöku á EM2024 auk gestgjafa. Um hin 15 sætin verður keppt um í undankeppni sem fram fer í janúar 2024. Ekki er ósennilegt að Ísland sé á meðal átta þeirra bestu þegar litið er til árangurs á EM karla 2018, 2020 (haldið 2021) og 2022.


Svipaður háttur verður hafður á varðandi EM U17 ára landsliða kvenna 2025 nema að undankeppnin verður í nóvember 2024.

Engin undankeppni U20 ára liða

Þrettán efstu þjóðir á EMU20 ára landsliða karla sem fram fór í Porto í sumar eru örugg um sæti á EMU20 árið 2024. Ísland var í hópi þrettán efstu og er öruggt um sæti í lokakeppninni. Engin undankeppni verður heldur verður raðað í þau sæti sem eftir eru miðið við árangur í B-hluta EM sem einnig fór fram í sumar í tveimur hlutum.

Raðað niður eftir árangri

Ekki verður heldur undankeppni fyrir EMU19 ára landsliða kvenna sem fram fer með 24 liðum árið 2025. Raðað verður niður eftir árangri á EM 19 ára landsliða sem fram fer á næsta sumri. Rúmenar verða gestgjafara A-mótsins en B-keppnin fer fram í tveimur hlutum, önnur í Klaipeda í Litáen og hin í Pristína í Kósovó.

U19 ára áfram í B-hluta?

Eins og sakir standa bendir allt til þess að Ísland verði með lið í annarri hvorri B-keppninni eins og sumarið 2021 og leiki þar með annað hvort í Klaipeda eða í Pristína. Evrópumót 19 ára landslið kvenna mun fara fram í júlí.

Bakú eða Ankara

EM U17 ára landsliða kvenna sem haldin verða á næsta ári fer einnig fram á þremur stöðum eins og EM U19 ára landsliða. Podgorica í Svartfjallalandi verður vettvangur A-keppninnar en B-mótin verða annarsvegar í Bakú í Aserbaídsjan og hinsvegar í Ankara í Tyrklandi.

Ekki liggur fyrir hvort íslenska landsliðið fer til Bakú eða Ankara. U17 ára mótin verða haldin í ágúst.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -