Rússar, Danir, Norður-Makedóníumenn og Svíar tryggðu sér í kvöld farseðilinn í lokakeppni Evrópumóts karla í handknattleik sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar á næsta ári. Bætast þau í hóp með þýska landsliðinu og serbneska sem eru þegar örugg um sæti í lokakeppninni.
Rússar unnu frændur okkar Færeyinga í Moskvu, 31:24, og eru þar með öruggir um annað af tveimur efstu sætum riðilsins. Tékkar og Úkraínumenn bítast um hitt sætið sem er í boði í þriðja riðli. Tékkar standa betur að vígi eftir sigur á Úkraínu í Zaporozhye í dag, 28:26. Lið þjóðanna mætast á ný á sunnudaginn í Tékklandi.
Allan Norðberg leikmaður KA skoraði tvö fyrir færeyska landsliðið í Moskvu í dag og Framararinn Vilhelm Poulsen skoraði eitt mark. Rógvi Dal Christiansen skoraði ekki að þessu sinni. Nicholas Satchwell stóð í marki færeyska landsliðsins og varði þrjú skot eftir því sem næst verður komist.
Norðmenn eru að minnsta kosti komnir með annan fótinn í lokakeppnina og sömu sögu má segja um Hvít-Rússa sem eru með þeim í sjötta riðli. Norðmenn lögði Letta, 28:23, í Ríga.
Danir og Norður-Makedóníumenn hafa tryggt sér tvö efstu sætin í 7. riðli fyrir lokaumferðina á sunnudag. Danir mættu ekki með sína sterkustu sveit til Winterhur í dag og skildu þjálfarann, Nikolaj Jacobsen, eftir heima. Engu að síður tókst þeim að merja sigur á landsliði Sviss og gera út um vonir þess að fara rakleitt áfram í lokakeppnina. Sviss á þó einhverja von um að verða eitt þeirra liða sem hafna í þriðja sæti sem geta komist áfram. Fjögur lið komast áfram með bestan árangur í þriða sæti.
Svíar unnu öruggan sigur á Rúmenum, 31:23, í Sibiu í Rúmeníu. Andreas Palicka reyndist leikmönnum rúmenska landsliðsins erfiður. Sænska landsliðið er öruggt í lokakeppnina. Svartfellingar standa best að vígi í baráttunni um annað sætið.
Leikir dagsins í undankeppni EM 2022:
3.riðill:
Úkraína – Tékkland 26:28 (12:16)
Rússland – Færeyjar 31:24 (16:10)
Staðan:
Rússland 8(5), Tékkland 5(4), Úkraína 5(5), Færeyjar 0(4).
6.riðill:
Lettland – Noregur 23:28 (13:14)
Staðan: Noregur 6(4), Hvíta-Rússland 6(4), Ítalía 2(4), Lettland 2(4).
7.riðill:
Finnland – N-Makedónía 22:27 (14:12)
Sviss – Danmörk 29:30 (17:14)
Staðan: Danmörk 8(5), N-Makedónía 8(5), Sviss 4(5), Finnland 0(5)
8.riðill:
Rúmenía – Svíþjóð 23:31 (7:14)
Kósovó – Svartfjallaland 22:27 (10:13)
Staðan: Svíþjóð 8(4), Svartfjallaland 4(4), Kósovó 3(5), Rúmenía 3(5).