Blomberg-Lippe með íslensku landsliðskonurnar Andreu Jacobsen og Díönu Dögg Magnúsdóttur innanborðs vann Göppingen á útivelli í síðustu umferð þýsku 1. deildarinnar í handknattleik í dag, 29:25. Á sama tíma töpuðu Sandra Erlingsdóttir og liðsfélagar í TuS Metzingen fyrir Bensheim-Auerbach, 31:25 á heimavelli.
Úrslitakeppnin á næstu grösum
TuS Metzingen hafnaði í sjöunda sæti en Blomberg-Lippe í þriðja og mætir Oldenburg í átta liða úrslitum í úrslitakeppni sem reynd verður í fyrsta skipti eftir langt hlé í þýska handknattleiknum. TuS Metzingen leikur við Borussia Dortmumd sem hafnaði í öðru sæti deildarinnar.
Úrslitakeppnin hefst fljótlega eftir landsleikjavikuna sem framundan er.
Andrea lét til sín taka
Andrea skoraði tvö mörk úr fjórum skotum fyrir Blomberg-Lippe í sigrinum í Göppingen í dag. Hún átti eina stoðsendingu, var einu sinni vikið af leikvelli og varði fimm skot í vörninni.
Díana með eftir langt hlé
Díana Dögg var í leikmannahópi Blomberg-Lippe í dag í fyrsta sinn frá 19. janúar þegar hún ristarbrotnaði í leik í Ungverjalandi í riðlakeppni Evrópudeildar. Díana Dögg kom lítið við sögu í leiknum í Göppingen.
Sandra skoraði tvö mörk fyrir TuS Metzingen.
Lokastaðan í þýsku 1. deildinni:
Ath staðan er ekki alveg rétt. Blomberg-Lippe á að vera í þriðja sæti vegna þess að liðið er með betri stöðu í innbyrðisleikjum við Thüringen. Töflukerfið hefur ekki verið rétt forritað.